132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Ég fagna því, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra viðurkennir það hér að þessi kostnaður sé að hækka hjá mörgum, en vísitalan mælir meðaltal. Virðulegi forseti, það eru hér ótal blaðagreinar og úttektir sem segja að verðið sé að hækka. Ný raforkulög leiða til hærra vöruverðs, segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og bendir á að það sé mjög furðulegt og komi á óvart. Sama má segja um dreifbýlið, en hæstv. iðnaðarráðherra viðurkennir vissulega að svo sé. Það er fólk í dreifbýli sem þarf að taka á sig mikla hækkun, allt að 40%.

Virðulegi forseti. Ég er með dæmi úr reikningi fyrirtækis sem rekur ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þar er um að ræða tíu íbúðir. Árið 1996 voru 350 þús. kr. greiddar í orkureikning af starfseminni. Árið 2005 var það rétt rúm milljón. Virðulegi forseti, það er langbest að sækja sér tölur í reikninga fyrirtækja til að sjá hvort orkuverð er að hækka eða lækka, ekki taka meðaltalið. Það er þannig, virðulegi forseti, að í þessum raforkulögum virðist langmest níðst á fólki og iðnfyrirtækjum í dreifbýli.