132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:37]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er verið að skamma mig fyrir að tala um meðaltöl en það er erfitt að tala hér á hv. Alþingi um hvern og einn neytanda eða hvert og eitt fyrirtæki í landinu. Það eru svör við þessum hlutum, það eru skýringar á því hvers vegna sumir hækka og aðrir lækka, en það er eitthvað sem ég get ekki svarað í þessu stutta andsvari hér.

Aðalatriðið er að við erum komin með raforkukerfi til framtíðar sem er miklu gegnsærra og ég vil segja miklu betra en gamla kerfið. Við skulum vona að fyrirtækin í landinu notfæri sér ekki þessa breytingu til þess að koma fram á ósanngjarnan hátt gagnvart neytendum, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, við skulum vona að það sé ekki. Ég vona að Orkustofnun og aðrir þeir sem eiga að hafa eftirlit með hlutnum sjái til þess að svo verði ekki.

Grundvallarbreyting var gerð á öllu þessu fyrirkomulagi og ég tel að það hafi tekist bærilega (Forseti hringir.) og eiginlega bara býsna vel.