132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem liggur fyrir í skýrslunni og ég tel að hún gefi mjög góða mynd af ástandinu og af breytingunni, hvernig hún hefur komið niður á viðkomandi neytendum. Það kemur líka fram að tekjurammi Landsnets hækkaði um um það bil 7% árið 2006 og hjá dreifiveitum um 3–4%. Þetta liggur fyrir.

Annað eru hlutir sem mest hafa verið í umræðunni, varða t.d. húshitunarkostnaðinn, og við erum búin að fara nokkuð oft yfir það — ég get alveg gert það einu sinni enn hér á eftir í andsvari — og svo þetta sem ég orðaði áðan að nú er það ekki þannig að fyrirtækin séu með sömu gjaldskrá á öllu sínu þjónustusvæði eins og Rarik var og Orkubú Vestfjarða. Nú er þessu skipt eftir þéttbýli og dreifbýli og ríkið borgar niður dreifinguna í dreifbýlinu upp að (Forseti hringir.) ákveðnum mörkum sem varða dýrustu dreifingu í þéttbýli á landinu, sem er í Reykjavík.