132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú skýrsla um raforkumálefni sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur er góðra gjalda verð og ég þakka fyrir hana. Ég tel að það sé margt gott í henni og mjög gagnlegt að taka þessi málefni saman með þessum hætti. Þó við höfum margt af þessu séð er mjög gott að eiga aðgengileg skýrslu eins og þessa með þessum málefnum samandregnum og þeirri umfjöllun sem er þó í skýrslunni sjálfri.

Ég kemst þó ekki hjá því að segja að mér finnst að hæstv. ráðherra hefði átt að fara svolítið yfir stefnuna sem ríkisstjórnin hefur í þessum málefnum. Ekki er svo að skilja að ég þykist ekki átta mig nokkurn veginn á henni. En ég tel að það þurfi góðan rökstuðning fyrir því að halda þessari stefnu áfram. Hún er ekki mjög skynsamleg og mjög margt stangast á í stefnunni sem er rekin. Það er ekki trúlegt t.d. að með nokkru móti sé hægt að fá einhvers konar samkeppni fram að neinu marki við það fyrirkomulag sem er í gildi. Það hefur samt sem áður komið fram að ríkisstjórnin hyggst sameina orkufyrirtæki hins opinbera í eitt stórt orkufyrirtæki, þ.e. að Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða skuli renna saman í eitt fyrirtæki. Það sjá auðvitað allir menn að ekki er mikill samkeppnismöguleiki á þessum markaði ef ákveðið verður að gera þetta svona. Ég tel þess vegna að full ástæða sé til að kalla eftir rökstuðningi fyrir þessari stefnu. Hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni áðan að flest stór orkufyrirtæki væru í eigu opinberra aðila. En hún fjallaði ekkert nánar um það. Þetta er að mínu viti eitt af stærstu málefnum okkar hvað varðar framtíð raforkugeirans í landinu, þ.e. hvernig við komum þessu fyrir. Stjórnvöld hafa það algerlega í sinni hendi hvernig þessum málum verður skipað inn í framtíðina. Úr því að við erum komin á þá braut að hér eigi að vera samkeppni í raforkugeiranum þá verðum við að reyna að gera það með eins trúverðugum hætti og mögulegt er. Margt verður erfitt að framkvæma hvað þessi mál varðar. Eitt af því er það sem ég er að tala um, að það verður auðvitað að sjá til þess að fyrirtækin sem takast á á markaðnum verði burðug og leitist við að tryggja sem besta hagkvæmni og keppa síðan um viðskiptavinina með verðlagningu á orkunni. Þetta gerist ekki með því fyrirkomulagi sem nú er. Það getur bara ekki verið. Við þekkjum það úr öðru samkeppnisumhverfi en þessu að það þarf burðuga andstæðinga á slíkum markaði — eða samkeppnisaðila. Það er kannski ekki rétt að kalla þá andstæðinga heldur samkeppnisaðila — til að fá fram eðlilegt umhverfi þar sem samkeppni nýtur sín, þar sem fyrirtækin njóta sín, þar sem eðlileg arðsemi er látin ráða hvernig raforkuverð mundi þá þróast í þessu tilfelli og fjárfestingar ákveðnar út frá því verði sem hægt er að fá á þessum markaði.

Þetta vildi ég nú segja fyrst, hæstv. forseti. Orkugeirinn í landinu er gríðarlega mikilvægur og stefna stjórnvalda skiptir öllu máli hvað varðar framtíðina. Við sjáum núna að verið er að margfalda í raun og veru framleiðslu á raforku í landinu á mjög stuttum tíma. Við sjáum á blaðsíðu 43 í þessari skýrslu að rúmlega átta teravattstundir eru komnar í notkun núna um þessar mundir. En það er reiknað með að áður en árið 2008 rennur upp geti verið um að ræða 16 teravattstundir sem búið væri að virkja í landinu og koma í nýtingu. Auðvitað segir þetta okkur að við erum að taka hér gríðarlega stórar ákvarðanir um nýtingu á orkulindum landsmanna. Við erum ekkert bara að taka ákvörðun um að nýta orkulindir. Við erum að tvöfalda þessa nýtingu bara frá því núna og þangað til á árinu 2008. Við erum að taka ákvarðanir um að nýta okkur útblástur frá þessu landi algerlega í topp hvað varðar það samkomulag sem gert var. Ef við gerum ráð fyrir að það samkomulag gildi áfram og gerum ráð fyrir því að viðræðum Landsvirkjunar við þá sem reka álverið í Straumsvík ljúki með samkomulagi þá liggur alveg ljóst fyrir — og það þýðir ekki að vera með neina útúrsnúninga hvað það varðar —að þá er búið að nýta alla möguleika til útblásturs miðað við það samkomulag sem var gert, ef samkomulagið verður óbreytt eftir árið 2012. Þannig liggur málið. Allt tal um að þetta sé óljóst og þegar látið er að því liggja að hægt sé að framleiða eitthvað meira, að hægt sé að reikna út einhvers konar meðaltal á þessum árum, segir okkur ekkert annað en að menn eru að fela sig, að búa til einhverja þoku í kringum málin. Það hlýtur að vera einfalt fyrir þá sem vilja að svara því hreinskilnislega hvort þeir séu tilbúnir að taka áhættuna af því að ekki verði hægt að standa við sams konar samkomulag og er í gildi núna eftir árið 2012 um losun á gróðurhúsalofttegundum frá landinu. Það er mín skoðun að á meðan menn hafa ekkert annað í hendi verði þeir að reikna með því að staðan geti ekki batnað frá þeim samningi sem er í gildi hvað þetta varðar. Síðan þurfa menn auðvitað að hafa pólitískar skoðanir á því hvort þeir ætli að sækjast eftir auknum heimildum fram yfir það sem Ísland hefur eða ekki. Það er hluti af raforkustefnu eða orkustefnu Íslendinga. Við þurfum líka að svara því hvort þessi kynslóð — ekki kynslóð heldur stjórnmálamenn sem verða við völd hér fáein ár — hvort þeir ætli að taka sér vald til að ráðstafa öllum bestu orkulindunum á mjög stuttum tíma til mjög langrar nýtingar. Hvaða verkefni bíða í framtíðinni hvað varðar orkunotkun? Fram hafa komið t.d. hugmyndir um að framleiða orku fyrir skipaflotann eða í önnur verkefni. Hvaða orkulindir eru það? Eru þær sambærilega við þær orkulindir sem nú er verið að taka ákvarðanir um að nýta? Þessu verða menn að svara, þ.e. hversu langt menn vilja ganga í þessum efnum. En að mínu viti er þó að minnsta kosti hægt að svara því skýrt hvort menn séu tilbúnir til að taka ákvarðanir núna sem gera það að verkum að Íslendingar þurfi á meiri losunarheimildum að halda en fólgnar eru í samningnum sem er í gildi eftir árið 2012. Ég segi fyrir mitt leyti að ég get alveg svarað því skýrt. Mér finnst það ekki koma til greina. Mér finnst að menn þurfi að hafa í hendi sinni þá framtíð sem um er að ræða þarna áður en þeir svara slíkum spurningum. Að halda einhverjum fyrirtækjum uppi á einhvers konar samningaviðræðum sem hafa ekki grundvöll undir sér hvað þetta varðar er að mínu viti ekki mjög skynsamlegt. Ég verð að segja líka að ef þær samningaviðræður eða athuganir sem eru í gangi hvað þetta varðar ganga út að þessi fyrirtæki verði að flytja inn losunarheimildir til að geta ráðist í þau verkefni sem þarna er verið að skoða þá hljóta stjórnvöld á Íslandi að þurfa að segja að það sé þeirra stefna. Það hefur ekki verið sagt enn. Það þarf að segja það skýrt og skorinort. Ef það er meiningin að staðið verði að framleiðslu á áli hér á landi sem kallar á meiri útblástur en losunarheimildirnar núna leyfa eftir árið 2012 og það eigi að gerast með innflutningi á losunarkvótum eftir þann tíma þá er það meiri háttar mál sem þarf að segja frá ef menn ætla að vera hreinskilnir í pólitíkinni. Það á ekkert að fela það. Ef það er stefnan þá á hún að vera ljós og klár. Það er mín skoðun að þetta þurfi að liggja allt saman fyrir.

Mér finnst að Íslendingar verði líka að svara spurningunni um hvort sjálfbær þróun sé við lýði á Íslandi. Sjálfbær þróun er skilgreind þannig, eftir því sem ég hef best skilið, að hún sé svæðabundin þróun. Sjálfbær þróun er á einhverju tilteknu svæði. Ef menn spyrja: Er sjálfbær þróun á Íslandi, þá hljóta þeir að þurfa að svara því hvort hér sé að aukast útblástur eða mengun frá landinu eða ekki. Það gæti verið mikilvægt að geta svarað þessari spurningu játandi í framtíðinni ef Íslendingar ætla að byggja framtíð sína á því að vera fegursta land í heimi, eins og margir segja, og á því að hér sé hreinleikinn, að hér passi menn upp á náttúruna og hreinleikann. Svo kemur útlendingurinn og spyr: „Er sjálfbær þróun á Íslandi?“ Þá reka menn í vörðurnar. „Nei, það er nú ekki þannig. Við erum dálítið að auka losunina hjá okkur.“ Það er ekki gaman að þurfa að svara þessu svona. Það getur verið svolítið flókið að útskýra fyrir viðkomandi ... (Gripið fram í.) Það getur verið svolítið erfitt að útskýra fyrir viðkomandi að við séum að bjarga heiminum. Það eru nefnilega ábyggilega fleiri tilbúnir að bjarga heiminum en Íslendingar. (Gripið fram í.) Það er hægt að framleiða rafmagn víðar en á Íslandi. Það er líka hægt að framleiða ál víðar en á Íslandi. (Gripið fram í.) Við þurfum umfram allt, að mínu viti, að hafa stefnuna klára, vera klárir á því, Íslendingar, hvað við viljum, hvert við ætlum okkur og hvernig við rökstyðjum það sem við erum að gera. (Gripið fram í.) Það aumasta af öllu er að halda áfram þegjandi án þess að segja neitt hvert maður er að fara. Það eru stjórnvöld að gera hér. Hér má ekki tala skýrt. Hér þarf að svara í þokukenndu máli ef spurt er einfaldra spurninga. Hvert eru menn að fara? Er meiningin að eftir árið 2012 þurfi fyrirtæki sem rekin eru Íslandi á því að halda að spúa meiri mengun upp í loftið en gert er ráð fyrir í samningum? Hvernig ætla menn að fara þá að því? Mér fyndist gott ef á þessum degi fengjust svör við þessu og hæstv. ráðherra mundi leggja í göngu upp í stólinn til að útskýra fyrir þjóðinni á hvaða leið ríkisstjórnin sé í þessu máli. Hver er hugsunin eftir 2012?