132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði af svo mikilli athygli að ég áttaði mig ekki á að tíminn væri liðinn. Ég hafði hugsað mér að koma upp og bregðast við því sem hv. þingmaður talaði um, ekki síst varðandi Kyoto-bókunina og íslenska ákvæðið.

Þegar ég geri samninga finnst mér aðalatriðið að standa við þá. Í þessu tilfelli gerum við það. Þótt það yrði af öllum þeim framkvæmdum sem talað hefur verið um í dag, sem ég reikna ekki með að verði. Ég reikna ekki með að af öllum þessum framkvæmdum verði á þeim tíma sem rætt hefur verið um. Rætt hefur verið um þrjár framkvæmdir á tilteknum tíma. Það á eftir að semja um margt og mér finnst ótrúlegt að það gangi allt saman upp. En mér finnst mikilvægast að við spyrjum: Þurfum við að skammast okkur fyrir að fá auknar heimildir? Auðvitað mundum við aldrei fá auknar heimildir nema að aðrar þjóðir teldu það skynsamlegt. Það var þess vegna sem við fengum íslenska ákvæðið inn. Aðrar þjóðir töldu að þegar horft væri til jarðarinnar allrar væri mikilvægt að framleiða ál á Íslandi.

Ef við fáum viðbótarheimildir finnst mér það ekkert að skammast okkar fyrir, miklu frekar hitt. Við gerum gagn með því. Það skiptir máli að hleypa sem minnstu af þessum efnum út í andrúmsloftið og með því að framleiða ál með endurnýjanlegri orku leggjum við okkar að mörkum í þeim efnum.