132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:02]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara mér. Mér finnst mjög mikilvægt að fá nánari svör við spurningum sem ég bæti nú við. Hæstv. ráðherra sagði að þótt af öllum þessum framkvæmdum yrði þá mundum við standa við samninga. Hæstv. ráðherra vill standa við samninga.

Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því hvort það sé ekki þannig að sú framleiðslugeta sem yrði til árið 2012 mundi framkalla verulega meiri útblástur en gert er ráð fyrir árlega hjá okkur núna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það verði ekki erfitt fyrir Íslendinga að mæta til viðræðna við aðrar þjóðir um útblástur gróðurhúsalofttegunda eftir að hafa sett upp fyrirtæki hér í landinu sem spúa meira í loftið en gert er ráð fyrir að fari í loftið frá Íslandi að meðaltali. Ég held því ekki fram að ekki megi lesa samninginn með þeim gleraugum sem hæstv. ráðherra hefur kosið að setja upp. Ég spyr bara: Verða menn ekki líka að hugsa um framhaldið? Ekki munu menn taka úr notkun þau ker í álverunum sem framleiða það sem út af stendur eftir 2012. Hvernig hugsar hæstv. ráðherra þetta mál?