132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Óneitanlega hefði ég viljað gera athugasemd við eitt og annað, en ég þakka hv. þingmanni engu að síður fyrir ræðuna. Eins og við höfum margoft farið yfir þá held ég því fram í sambandi við Landsvirkjun og framkvæmdir við Kárahnjúka að um sé að ræða arðbæra framkvæmd, 11% arðsemi af eigin fé og ég held að það sé bara allgott. Sérfræðingar fóru yfir þessi mál af hálfu eigenda sameiginlega og niðurstaðan varð sú að allt væri með felldu í sambandi við þessa áætlanagerð. Ég held að við þurfum ekkert að ræða það frekar en það væri forvitnilegt að vita hvað hv. þingmanni finnst vera ásættanleg arðsemi í framkvæmd af þessu tagi, ef hann vildi segja mér það.

Svo er það þessi öfgafulla stefna Framsóknarflokksins sem hv. þingmaður talar um og ýjar að því að ekki sé samstaða á milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni, það er algjör samstaða á milli flokkanna í þessu, almennt er samstarfið gott og árangursríkt eins og við þekkjum.

Sú fullyrðing að fyrirtæki fari úr landi út af þessari stóriðjustefnu er ekki rétt. Fagmenn, sem ég treysti ákaflega vel að fari með rétt mál, segja að það séu ekki fyrst og fremst stóriðjuframkvæmdirnar sem valdi háu gengi krónunnar heldur sala skuldabréfa í íslenskum krónum, miklar lántökur viðskiptabankanna og síðan útlán hér og hækkun fasteignaverðs. Hins vegar ætla ég ekki að neita því að stóriðjan hafi einhver áhrif þar á en hún er ekki aðalorsakavaldurinn.

Hvað það varðar að raforkukostnaður á sum fyrirtæki hafi hækkað um 20 til 30% eftir að breytingin átti sér stað þá er það út af því sem ég nefndi hér áðan að það var í gangi ótrúleg (Forseti hringir.) óreiða í þessum málum, menn voru með alls konar samninga (Forseti hringir.) sem voru hreinlega út í hött.