132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:34]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, innstreymi fjármagns til landsins og inn í efnahagskerfið veldur þenslu, segir hæstv. ráðherra, ekki stóriðjuframkvæmdirnar fyrst og fremst. En gæti nú verið samhengi á milli þess annars vegar að virkja stórt og lýsa því yfir að áfram verði virkjað stórt, og að krónan sé af þeim sökum sterk og verði fyrirsjáanlega sterk, og hins að þeir sem vilja lána inn á íslenskan lánamarkað séu reiðubúnir að gera það á komandi árum, vegna þess að þeir viti sem er að við slíkar aðstæður, við mikla eftirspurn eftir gjaldmiðlinum, séu þeir öruggir með sitt fé? Þar er samhengi hlutanna á milli innstreymis í efnahagskerfið, útlána bankanna og stóriðjustefnunnar og yfirlýsinga hæstv. ráðherra.

Ein spurning varðandi arðsemina. Er það rétt skilið hjá mér að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun sé ekki lokið eða er ég að misskilja eitthvað í þeim efnum? Því að þegar talað er um arðsemi framkvæmda sem eru í mikilli óvissu, sem er ekki lokið, þar sem borar eru að bila, þar sem fyrirsjáanleg er veruleg töf með miklum sektum, geta menn ekki verið eins nákvæmir og hæstv. ráðherra vill vera láta.

Hvað fyndist mér vera ásættanleg arðsemi af þessum virkjunum? Ég skal segja hæstv. ráðherra það. Það er lækkað og stórlækkað raforkuverð til landsmanna, eins og heitið var á sínum tíma af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra, forvera hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, Finns Ingólfssonar. Margoft hef ég gengið eftir þessu og spurt hæstv. ráðherra um þessi efni í blaðagreinum, í opnum greinum, bréfum, (Forseti hringir.) án þess að hafa fengið svör. (Forseti hringir.) En þetta teldi ég vera ásættanlega arðsemi.