132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:55]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig með hv. þingmann að hann setur dálítið mikið út á hlutina. Ég hef ekki heyrt hann hafa miklar tillögur í málinu. Það er ekki þannig að sú sem hér stendur gleðjist sérstaklega yfir því að sumir hafi verið að hækka. Það er bara alls ekki þannig. Ég hefði óskað að það hefði ekki gerst. En við verðum bara að viðurkenna að margt af því sem viðgekkst í gamla fyrirkomulaginu gengur ekki upp miðað við breytt lög. Við getum ekki mismunað, eins og gert var alveg í stórum stíl, þegar við höfum tekið upp þetta nýja fyrirkomulag. Það varðar t.d. bændur. Hvað vill hv. þingmaður gera? Nú má hugsa sér að styrkja bændur þá sérstaklega í gegnum fjárlög frekar en er í dag út af raforkukostnaði. En það er ekki hægt að gera þetta með þeim hætti að aðrir neytendur borgi niður kostnað bænda við búrekstur. Þetta er eitt dæmið.

Svo talar hv. þingmaður um að verið sé að auka erfiðleika atvinnurekstrar í landinu og sérstaklega á landsbyggðinni. Það er ekki rétt. Atvinnurekstur á landsbyggðinni er fyrst og fremst að lækka. Það er bara þannig. Ég hef líka fullt af upplýsingum um það frá fyrirtækjum, jafnvel þar sem forstöðumennirnir hafa sagt mér að þeir hafi sagt hv. þm. Kristjáni Möller frá því að þeir hafi verið að lækka. En hann virðist ekki meðtaka þau skilaboð.

Ég hef aldrei haldið því fram að þessi breyting gæti ekki leitt af sér hækkun einhverra hópa. Það kemur bókstaflega fram að bara það að útvíkka flutningskerfið þýðir hækkun hér á þessu svæði um 2–4%. Hvað segir hv. þingmaður um það? (Forseti hringir.) Er rangt að fara út í þá breytingu?