132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:24]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann. Þar sem hann nefnir hér útrás hátækninnar hefur hann þá ekki kynnt sér að í gegnum allar þær virkjanaframkvæmdir sem hér hafa verið síðustu áratugina, bæði í vatnsafli og hitaorku, hefur orðið til hátækniiðnaður á Íslandi? Það hefur orðið til gríðarleg þekking. Metur hann það einskis að hér sé tugur verkfræðinga, sérfræðinga sem veita ráðgjöf víða um heim? Þetta er ákveðin útrás og þetta er það sem við erum að hafa sem afleidd störf af virkjunum okkar.

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að miða við að nota það afl sem býr í náttúrunni, virkja það og nýta okkur til atvinnusköpunar. En að sjálfsögðu höfum við jafnhliða sett hér reglur og lög um það á Alþingi hvernig meta skuli umhverfisáhrif framkvæmda. Við erum komin með mikla löggjöf um það og förum auðvitað eftir henni. Ég tel að Þjórsár/Tungnaársvæðið sé mjög ákjósanlegt svæði gagnvart túrisma. Þarna er komið slitlag. Það eru komin falleg vötn. Það er fiskur í þeim mörgum. Það sem þarna er er einungis til að bæta upp fallegt landslag og það mun skila okkur líka arði.