132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:26]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ferðamennska er einmitt eitt þeirra atriða sem við ættum að einbeita okkur að. Það er dálítið barnalegt að halda því fram að malbikaðir vegir og betri aðstæður séu virkjunum að þakka. Við gætum lagt betri vegi án þess að þeir liggi allir að virkjunum. Auðvitað eigum við að flytja út þekkingu t.d. á háhitasvæðunum okkar. Við höfum verið að gera það til Ungverjalands og Kína. Það er mjög jákvætt. Á því eigum við að byggja, að flytja út þessa þekkingu í staðinn fyrir að eyða öllum okkar náttúruperlum og sökkva þeim. Það er sorglegt. (Gripið fram í: Öllum?) Já, það stefnir í það. (Gripið fram í: Í hvaða lóni?)

Ég ætla að nefna eitt skemmtilegt dæmi. Þegar ég flutti til Þýskalands var mikil herferð þar í gangi um orkusparnað. Orkufyrirtæki í borginni Hannover var að gefa fólki orkusparandi ljósaperur. Mér fannst það eitthvað skrýtið, komandi frá Íslandi, að orkufyrirtæki reyndu ekki að fá okkur til að nota meiri orku. En þeir sögðu: „Við reiknum það bara út. Við hefðum þurft að byggja nýtt orkuver (Gripið fram í: Hvernig?) sem hefði kostað svona mikið … — Vindorkuver. Það gæti verið kjarnorkuver eða gasorkuver. Það hefði kostað svona mikið. Allur kostnaðurinn sem hefði farið í lán og framkvæmdir á þessu hefði hækkað raforkuverð. Ef okkur tekst hins vegar að draga úr raforkunotkun eða halda henni í stað þá getum við jafnvel lækkað raforkuverðið í framtíðinni vegna þess að við erum búin að borga af þessum dýru lánum og búin að niðurgreiða virkjanirnar.“ Þá rann upp fyrir mér nýtt ljós. Þetta gæti hæstv. iðnaðarráðherra haft að leiðarljósi.