132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um raforkumálefni og ég tek undir þakkir hv. þingmanna fyrir skýrsluna. Það er alltaf gagnlegt að fá plögg af þessu tagi og fá síðan yfirgripsmikla umræðu um þau við þá ráðherra sem í hlut eiga. Ég get ekki annað sagt en að hér fari fram nokkuð málefnaleg og efnisrík umræða um efni þessarar skýrslu og vítt sé farið yfir sviðið, og er það vel. Ég ætla að sitja á mér á þessu korteri sem ég hef til umráða að fara mikið í verðlagsmálin og verðlagninguna. Ég hef oftar en einu sinni staðið í þessum ræðustóli og haldið því fram að það hafi verið vanhugsað af okkur Íslendingum að samþykkja að taka upp raforkutilskipun Evrópusambandsins á sínum tíma. Ég hef haldið því fram að við höfum haft full efni til að sækja um undanþágu frá henni og við hæstv. iðnaðarráðherra höfum tekist á um þau sjónarmið mín. Ég ætla því ekki að fara neitt nánar út í þau efni núna. En auðvitað rifjast upp fyrir mér mín sjónarmið og mín rök í þeim efnum þegar ég horfi hér á það sem við okkur blasir, á þessum nýja raforkumarkaði okkar í okkar litla hagkerfi. Staðreyndin virðist ætla að verða sú að ef einhverjir aðilar ná fótfestu á orkusölumarkaði þá eru allar líkur á því að það verði tvö stór fyrirtæki og það veit hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra jafn vel og ég að það telst ekki til samkeppni að hafa tvo aðila á markaði. Það telst til fákeppni. Þannig að ég sé ekki annað en við horfum enn fram á verulega erfiðleika við að innleiða hér einhvern samkeppnismarkað sem getur staðið undir nafni í þeim efnum, og þá er ég að tala um markað sem skilar neytendum lægra verði en ella hefði verið.

Ég tel að við Íslendingar hefðum átt að geta, með orkukerfi í almannaeigu og með almannaþjónustuþáttinn í fyrirrúmi, haldið áfram að nýta þessa sameign okkar út frá sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar eins og áskilið er í öllum milliríkjasamningum, jafnvel í okkar eigin samþykktum. Síðan hefðum við getað séð til þess að neytendamarkaðurinn hefði á hverjum tíma viðráðanlegt verð, og ekki bara viðráðanlegt verð heldur það lægsta í álfunni. Því auðvitað eiga Íslendingar, sem hafa yfir öðrum eins orkuauðlindum að ráða, að geta boðið sínum neytendum upp á ódýra raforku. Það finnst mér í öllu falli að komi af sjálfu sér. En sú er því miður ekki raunin. Ég sé ekki að nýtt umhverfi á raforkumarkaði breyti því til stórra muna.

Ákveðnir kaflar í skýrslu hæstv. ráðherra, frú forseti, vekja sérstaka athygli mína. Það eru þeir kaflar sem fjalla um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og aðrir kaflar sem lúta almennt að orkunýtingunni, orkunotkun og orkuöfluninni. Ég tek auðvitað eftir því að nokkuð víða í skýrslunni er talað um að það sé markmið í sjálfu sér að stuðla að sjálfbærri nýtingu okkar endurnýjanlegu orkulinda. Í orði kveðnu tek ég undir þau sjónarmið. Þegar grannt er skoðað sé ég hins vegar ekki annað en við höfum fullt tilefni til að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir á hvern hátt fólk notar hér þessi hugtök. Það að stuðla að sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er afar göfugt þegar maður hlýðir eingöngu á orðanna hljóðan, en þegar maður síðan skoðar þau orkumannvirki sem eru að rísa hér á landinu í dag þá hrópar á mann andstæða alls sem er sjálfbært. Það er að rísa hrikalegt orkumannvirki sem ætlað er að afla orku einungis til einnar atvinnustarfsemi, þ.e. álverksmiðju, og náttúruspjöllin af orkumannvirkinu eru þvílík að það er leitun að öðru eins á Vesturlöndum að minnsta kosti, á hvern hátt haldið er á málum í þeim efnum. Og umhverfisspjöllin af Kárahnjúkavirkjun einni saman eru svo gríðarleg að ekki er farið að sjá fyrir endann á þeim frekar en ég veit ekki hvað. Þar stefnir í verulegt óefni eins og hefur komið fram og á eftir að koma oftar fram eftir því sem framkvæmdunum við Kárahnjúkavirkjun vindur fram.

En ég hef áhyggjur af því á hvern hátt hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll leyfir sér að nota þetta hugtak og tala á jákvæðum nótum um að þau hugsi sér að stuðla að sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Og ég spyr: Hvað þýðir þetta? Við vitum vel að hvergi í lögum er þetta hugtak um sjálfbæra þróun skilgreint. Eða hvað merkir endurnýjanleg orkuauðlind? Á hvern hátt getum við skilið þau hugtök sem hæstv. ríkisstjórn er farin að temja sér að nota ef það er hvergi skilgreint hvað er á bak við þau? Nú nýverið kom út skýrsla frá Ríkisendurskoðanda sem fjallaði um samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika þar sem ríkisstjórnin er einmitt gagnrýnd fyrir skort á skilgreiningu á þessum hugtökum. Og hér blasir það við okkur að ríkisstjórnin getur slegið um sig með hugtökum sem í mínum huga hafa mjög ákveðna merkingu og hafa það í ýmsum alþjóðlegum samningum. En ríkisstjórnin lætur það sem vind um eyrun þjóta og virðist geta notað þessi hugtök algerlega án þess að það sé nokkurt gildi þar á bak við. Ég hefði haft fullan hug á að hæstv. ráðherra færi yfir það í sinni síðari ræðu á hvern hátt hún getur rökstutt að þær orkuframkvæmdir sem eru í gangi, og þyrftu að fara í gang ef yrði af öllum stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar, geti flokkast undir það að vera sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkuauðlinda.

Kaflinn um rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er í sjálfu sér athyglisverður. Í honum koma fram áður óþekkt gagnrýnisatriði sem mig langar að hafa um nokkur orð, frú forseti. Þau atriði er að finna í kaflanum 6.5.1 um niðurstöðu fyrsta áfanga rammaáætlunar. Þær niðurstöður lágu fyrir, eins og alkunna er, í nóvember 2003. Eins og segir í þessari skýrslu voru þar teknar fyrir og skoðaðar um 20 mögulegar vatnsaflsvirkjanir og annað eins af mögulegum jarðhitavirkjunum. Hér segir að lögð hafi verið áhersla á að ljúka stærstu vatnsaflskostunum og þeir hafi flestir verið í jökulám og byggist einnig flestir á miðlunarlónum á hálendinu. Svo kemur fram að í jarðhita hafi verið lögð áhersla á kosti nærri byggð og í þessum fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar hafi allmargir kostir sem orkufyrirtækin lögðu fram einnig verið skoðaðir og þar fram eftir götunum.

Svo kemur það sem mér þykir athyglisvert en á bls. 61 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Niðurstöður rammaáætlunar koma fram í röðun kosta eftir annars vegar hagkvæmni og almennum efnahagslegum áhrifum og hins vegar miðað við önnur sjónarmið, t.d. náttúrufarsgildi, menningarminjar, útivistargildi, áhrif á ferðamennsku og hlunnindi.

Ekki var unnt að vega alla þætti saman við röðun virkjunarkosta vegna þess að ekki voru til gögn til að gera upp á milli hagkvæmni einstakra jarðhitavirkjana. Í niðurstöðum verkefnisstjórnar er því flokkun fyrst og fremst byggð á mati á annmörkum viðkomandi virkjunar. Það dregur enn fremur úr gildi umræddrar röðunar að við mat á stærri virkjunum er tilhneiging til að gera mikið úr umhverfisáhrifum viðkomandi virkjunar, en til þess að stórar virkjanir fái notið sannmælis í röðun yrði að meta þær á móti heildaráhrifum af mörgum minni virkjunum sem væru samanlagt sambærilegar að stærð.“

Nú vil ég, frú forseti, biðja hæstv. iðnaðarráðherra að skýra þetta fyrir mér nánar. Ég kom að því í andsvari við hæstv. ráðherra eftir flutningsræðu hennar að ég vildi fá skilgreiningu á því hvað það þýddi að bæta úr annmörkum ýmissa kosta sem teknir voru fyrir í 1. áfanga, þ.e. að markmiðið með 2. áfanga sé m.a. það að bæta úr þessum annmörkum. Hér tel ég að komi fram talsvert beitt gagnrýni á niðurstöðu 1. áfanga rammaáætlunarinnar sem hefur ekki komið fram áður. Og nú hefur hæstv. ráðherra haft tíma síðan í nóvember 2003 til að gagnrýna þessar niðurstöður en sú gagnrýni hefur ekki komið fram.

Ég minnist þess að Landvernd óskaði eftir því á sínum tíma — Landvernd hafði með rammaáætlun ríkisstjórnarinnar að gera og vistaði upplýsingarnar sem fóru síðan á vefinn fyrir ríkisstjórnina og matreiddi þær upplýsingar — og hafði áformað að hafa fund um niðurstöður 1. áfanga þar sem þær yrðu gagnrýndar. En eins og ég man varð aldrei af þeim fundi og maður spyr sig: Getur verið að það hafi verið fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar að komið hafi verið í veg fyrir að fagleg og málefnaleg umfjöllun og gagnrýni færi fram á þeim vettvangi sem eðlilegastur var á þeim tíma sem niðurstöðurnar komu fram? Svo lítur hér dagsins ljós, seint og um síðir, gagnrýni frá hæstv. iðnaðarráðherra sem byggir bara á því að vinna þurfi upp að því er virðist stóran hluta 1. áfanga rammaáætlunarinnar í 2. áfanga. Ég verð að segja að ég er mjög hugsi yfir þessum framkomnu gagnrýnispunktum og teldi sannarlega eðlilegt að hæstv. ráðherra skýrði nánar hvað hér er átt við og hvers vegna þetta hafi ekki komið fram fyrr.

Svo segir hæstv. ráðherra í skýrslunni um 2. áfanga sem hún hefur nú komið af stað með afar fámennri verkefnisstjórn, verkefnisstjórn sem einungis sitja í fulltrúar iðnaðar- og umhverfisráðuneyta auk formanns sem tengist Orkustofnun eftir því sem sagt er í skýrslunni. Það hefði verið fengur að því að fá nánari upplýsingar um hverjir sitja í þessari verkefnisstjórn en það er kannski aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins, ég skal ekki segja um það. En hvað varðar það verkefni sem hæstv. ráðherra felur þessari stjórn, sem er m.a. það að vinna áfram að þróun aðferða við mat á náttúrufari, þá teldi ég eðlilegra að haldið yrði áfram á sömu braut og gert var í 1. áfanga áætlunarinnar þar sem sérstakir starfshópar eða faghópar, sem skipaðir voru sérfræðingum á ýmsum sviðum, voru fengnir til að vinna verkið. Þar voru m.a. sérfræðingar á sviði náttúru- og minjaverndar, útivistar- og hlunnindamála og hóparnir tóku mið af þessu og störfuðu hver á sínu sviði.

Ég verð að segja að bara sú rýra umgjörð sem nú virðist vera um 2. áfanga rammaáætlunarinnar, ég tala nú ekki um þær hugmyndir hæstv. ráðherra um að leiðrétta þurfi eða bæta úr einhverjum annmörkum fyrri hlutans, færir mér heim sanninn um það að hæstv. ráðherra ætli að hagræða niðurstöðum 1. áfangans í 2. áfanga, ritstýra þarna einhverri niðurstöðu sem verður henni og stóriðjustefnu hennar betur þóknanleg en niðurstaða 1. áfangans. Mér sýnist hér vera talsverð óheilindi á ferðinni eins og ég les í þetta og ef hæstv. ráðherra er ósammála mér í því eða telur að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur í þessum efnum þá treysti ég því að hún komi með haldbærar skýringar í síðari ræðu sinni.

Það kemur meira að segja fram á bls. 62 í skýrslunni að þessi verkefnisstjórn, þessi fámenna verkefnisstjórn sem ég gagnrýni, hafi skipað tvo stýrihópa, annan til ráðuneytis um jarðhitaverkefni og hinn um þróun viðmiða fyrir mat á landslagi. Ég spyr, hæstv. forseti: Af hverju þróun viðmiða fyrir mat á landslagi, bara landslagi? Þegar vitað er að hvað varðar náttúruverðmæti sem skoðuð eru, jafnt í náttúruverndaráætlun okkar sem annars staðar þar sem þau eru skoðuð, er verið að taka til svo margra annarra þátta en landslagsins. Ég sé ekki annað en að við verðum að taka alla þá þætti inn þegar við skoðum náttúrufarið sem tengist virkjunarkostunum.

Ég hef til gamans tekið með mér innganginn úr náttúruverndaráætlun okkar þar sem getið er um hverjar náttúruminjarnar geti verið sem rannsaka ber í tengslum við náttúrufarsrannsóknir vítt og breitt. Þar er talað um tilteknar lífverutegundir, þar er sagt að náttúruminjar séu samheiti yfir margvísleg fyrirbæri í náttúrunni sem talin eru hafa vistfræðilegt, menningarlegt, félagslegt eða vísindalegt gildi og ástæða er talin til að vernda sérstaklega, þar eru m.a. taldar upp náttúruminjar sem gætu verið lífverutegundir eða stofnar lífverutegunda, þar eru talin upp búsvæði tiltekinna lífverutegunda, sjaldgæfar vistgerðir, tegundarík svæði, fágætar jarðminjar, náttúrufyrirbæri með sérstakt vísindagildi, einstakt eða fagurt landslag og svo mætti lengi telja, segir í inngangi að náttúruverndaráætlun, og þar er haldið áfram og talað um að náttúruminjar séu verndaðar á mismunandi forsendum allt eftir eðli þeirra og þeirri hættu sem að þeim steðjar.

Ég sé ekki annað en að stóriðjustefna hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar sé ein af þessum hættum sem steðja að náttúrunni. Við höfum rakið hér, þingmenn, í máli okkar nokkra þætti þeirra mála og væri svo sem hægt að telja meira. En ég hefði óskað að fyrsta setningin í þessari skýrslu hefði verið meira í ætt við skilmerkilega stefnu um sjálfbæra þróun en raun ber vitni (Forseti hringir.) og auglýsi eftir því að hæstv. ráðherra segi okkur þá a.m.k. hvernig hún skilur þau hugtök sem við eiga.