132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um raforkumálefni og eðlilega hefur sú umræða farið vítt og breitt því að raforkan og orkumálin eru undirstaða fyrir grunnsamfélagsþjónustu í landinu, samkeppnishæfa byggð og búsetu um allt land og er jafnframt undirstaða fyrir samkeppnishæft atvinnulíf. Það skiptir því eðlilega gríðarlega miklu máli hvernig á er haldið í þessum efnum, auk þess sem forgangsröðun og val ríkisstjórnarinnar í orkumálum undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra er ein umdeildasta stefna og umdeildustu aðgerðir sem eru nú í gangi í samfélaginu og hefur verið á undanförnum árum. Þarf því ekki að undra þó hér sé farið vítt og breitt um sviðið.

Við heyrðum t.d. nú síðast hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, sem jafnframt er formaður iðnaðarnefndar, hvernig hann lýsti ást Framsóknarflokksins á stóriðju og tjáði álverksmiðjunum ást sína af miklum fjálgleik og fékk síðan lof frá hæstv. iðnaðarráðherra á eftir. Hann minntist t.d. á fyrirhuguð álver á Norðurlandi þar sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gengið fram og boðið erlendum álrisa að velja sér höfn og velja sér byggð á Norðurlandi. Það er svo gaman að fara með þeim út að borða, sagði hæstv. ráðherra á spjallvef sínum. Þeir mættu velja sér stað á Norðurlandi. Þeir mega velja hvort þeir fara niður í Skagafjörð, í Eyjafjörð eða hvort þeir fara á Húsavík. Allt að eigin vali. Að vísu er búið að leggja fram heilmikið opinbert fé til að undirbyggja þetta val.

Reisnin er svo mikil í þessu ferli öllu og til að spennan nái hámarki ætlar hinn erlendi álrisi að tilkynna Norðlendingum og hæstv. iðnaðarráðherra í New York hver verði nú fyrir valinu. Við munum að þetta gerðist hérna á öldum áður þegar Noregskonungur boðaði höfðingja landshlutanna og ættanna til Noregs til að hlusta á boðskap sinn til að vita hver mátti fara út og hver mætti gera hvað o.s.frv. Nú eru það þessir borðfélagar hæstv. iðnaðarráðherra sem boða Íslendinga á fund í New York til að hlusta á þann boðskap hver verði valinn á Norðurlandi. Svona er nú risið mikið.

Það var annars fróðlegt að heyra hjá hæstv. iðnaðarráðherra hversu miklum fjárupphæðum er búið að verja, annars vegar af hálfu hins opinbera, hvort sem það er iðnaðarráðuneytið, ríkið eða ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, eða sveitarfélögin í formi vinnu og fjármagns, til að undirbúa þetta stórkostlega val hins erlenda álrisa sem á að tilkynnast við kvöldverðarboð í New York. Búið er að verja miklu fjármagni til þess. Það vill svo til að einmitt á þessu svæði er víða fjárþörf. Háskólanum á Akureyri er haldið í stöðugu fjársvelti. Meira að segja sjúkrahúsið á Akureyri, þetta stóra og mikla sjúkrahús, hefur á undanförnum árum búið við fjársvelti, ekki getað tekið nýjar álmur í notkun sem þó hafa beðið þess. Á Húsavík tölum við um þekkingarsetur, um ferðaþjónustu, við tölum þar um margs konar annan atvinnuveg. Í Skagafirði eru einnig næg verkefni til að fást við ef hægt væri að fá fjármagn frá ríkinu til stuðnings annað en að fara í undirbúning álverksmiðja. En það er það eina sem Framsóknarflokkurinn undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra býður upp á með þeirri reisn sem ég var að lýsa.

En víkjum þá að raforkumálunum. Ég vil rifja upp að í því umdeilda ferli, í þeirri umdeildu vegferð sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði upp í með markaðsvæðingu á raforkukerfinu, með setningu nýrra raforkulaga, með stofnun sérstaks flutningsfyrirtækis, Landsnets, þá varaði ég mjög við þeirri stefnu sem verið væri að fara þar út í. Verið væri að breyta út frá þeim grunnhugtökum, þeirri grunnsýn að rafmagnið, orkan, er hluti af almannaþjónustu sem á að veita atvinnulífinu, íbúunum vítt og breitt um landið á sem hagstæðustum kjörum. Það í sjálfu sér að dreifa rafmagni til heimilisnotenda og atvinnulífs á ekki að vera afgerandi fyrir það fjármagn sem það er bundið í. Arðsemi raforkukerfisins á að koma fram í öflugu atvinnulífi sem skilar arði og í hagkvæmri búsetu. En þarna er valið af hálfu iðnaðarráðherra, ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins að markaðsvæða og síðan þá einkavæða rafmagnið. Þetta er sú stefna sem fylgt hefur verið og við höfum varað við henni.

Fyrir rúmu ári, þegar átti að setja þessa tilskipun í gildi, fluttum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri tillögu um að fresta þessu. Þá var óljóst hvað mundi gerast. Það var fyrirsjáanlegt að það yrðu miklar hækkanir og óljóst um framhaldið. En keppnin í að markaðsvæða rafmagnið, orkugeirann, var svo mikil að það var ekki hlustað á þessar viðvörunarraddir.

Hvað hefur síðan gerst? Jú, það má skoða hverja fréttatilkynninguna á fætur annarri lýsa því sem gerðist. Hér er ég með tilvitnun úr Viðskiptablaðinu frá 8. febrúar 2006, með leyfi frú forseta, undir yfirskriftinni: „Hækkanir á raforkuverði í kjölfar nýju raforkulaganna“. Þar er þetta tíundað:

„Þær breytingar sem gerðar hafa verið á raforkulögum síðastliðin þrjú ár hafa skilað sér í stórfelldum hækkunum til neytenda samkvæmt nýrri úttekt Alþýðusambands Íslands.

Í kjölfar breytinganna hefur heildarkostnaður meðalheimilis vegna raforkunotkunar hækkað um allt að 14% í þéttbýli og 33% í dreifbýli. Heildarkostnaður minni heimila hefur hækkað mun meira, eða um allt að 25% í þéttbýli og 48% í dreifbýli. Einnig hefur komið í ljós að sú breyting að heimili og fyrirtæki geti nú valið sér raforkusala muni einungis skila sér í innan við 2.000 króna sparnað á ári fyrir meðalheimili.“ — Þar fyrir utan er sú samkeppni í raun ekki til. Það er ekki neinn valkostur.

Síðan er þetta rakið ítarlega. Það er sama hvernig hæstv. iðnaðarráðherra slær um sig og lýsir yfir ánægju sinni og gleði yfir markaðsvæðingu rafmagnsins og ánægju yfir að hægt skuli vera að leggja auknar álögur á landsmenn í gegnum raforkuverð. Staðreyndirnar eru samt á borðinu. (Iðnrh.: Hvaðan komstu með þetta?) Þetta er ágætisblað sem ég get afhent hæstv. ráðherra á eftir.

Og það er kannski vandinn í hnotskurn, frú forseti, að hæstv. ráðherra er ekki í neinum tengslum við atvinnulífið, við hið daglega líf og (Iðnrh.: Er þetta ekki ASÍ-könnun?) er ekki í tengslum við launþegahreyfinguna, er ekki í tengslum við Neytendasamtökin eða sveitarfélögin sem öll álykta gegn svo gríðarlegri hækkun á raforkuverði. Nei, í fílabeinsturni í matarboðum með Alcoa, er heimurinn sem henni finnst skemmtilegri.

Ég hef fleiri slíkar yfirlýsingar. Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í Ríkisútvarpinu 13. janúar 2006, að raforkuverð hafi hækkað mikið frá því að breytingar á raforkulögum tóku gildi í fyrra, í sumum tilvikum allt að 50%. Markmið breytinganna var að koma á samkeppni í raforkusölu. Hann segir að það hafi ekki gengið eftir. Hvernig á að taka upp samkeppni þegar stærstu aðilarnir, ríkisfyrirtækin eru með þetta?

Hérna stendur líka, frú forseti … (Gripið fram í.) Já en þetta með samkeppnina er bara rugl. Ég er einhvers staðar með úrklippu einmitt frá Frakklandi. Er það ekki svolítið stærra land en Ísland, eða hvað, frú forseti? Þar eru fleiri notendur og tengingar á ýmsa vegu. Þar var yfirlýsing frá ríkisstjórninni í Frakklandi. Þeir sögðu að engin leið væri að koma á slíkri samkeppni í raforku. Þeir sóttu um undanþágu til að uppfylla Evróputilskipanir sem hæstv. iðnaðarráðherra Íslendinga hleypur á undan með.

Hér stendur t.d.: Kostnaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 12% vegna nýju raforkulaganna. (Gripið fram í.) Daggjald raforku hefur hækkað um 106%, segir annars staðar. Í hvaða heimi lifir hæstv. iðnaðarráðherra, frú forseti? Hún lifir í eigin heimi. Þegar rætt er um orkuverð til fiskeldis þá gagnrýnir Þorsteinn Már Baldursson, forstjóri Samherja, það. Hann hefur þó oft verið samherji hæstv. iðnaðarráðherra. Eða var það ekki svo þegar iðnaðarráðherra tók sæti Árna Steinars Jóhannssonar, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í að tala á sjómannadegi á Akureyri, af því að stefna hans í orkumálum var ekki fyrirtækinu þénug? (Gripið fram í.) Já, en skeggið er skylt hökunni. Og Þorsteinn Már Baldursson stendur við tölurnar um þetta háa raforkuverð, sama hvað hæstv. ráðherra segir.

Það er sama hvar á er litið. Við höfum yfirlýsingar frá sveitarfélögunum. Mér eru t.d. minnisstæð orð sveitarstjórans á Súðavík sem lýsti því hvað raforkulagabreytingin hefði þýtt fyrir það byggðarlag. Stórfelld hækkun fyrir fyrirtækin líka. Talað er um 1–2 millj. kr. hækkun á raforkuverði í rækjuvinnslunni, bara vegna nýju raforkulaganna.

Mér finnst kominn tími til að við skoðum hvernig snúa megi til baka og vinda ofan af þessu rugli. En hæstv. iðnaðarráðherra ætlar ekki að segja stopp þar við heldur er komið frumvarp um hlutafélagavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins. Ætlunin er sem sagt að markaðsvæða og síðan selja raforkufyrirtækin og þar skuli hvergi til sparað.

Hæstv. ráðherra minntist á að gæði rafmagnsins hefðu aukist. Jú, það má vel vera í einhverjum tilvikum. En stór hluti landsmanna kaupir enn einfasa rafmagn og á ekki kost á öðru. Margir bændur og fyrirtæki úti á landi eiga engan kost á að fá þriggja fasa rafmagn, sem gerði þeim mögulegt að fá bæði ódýrara rafmagn og tæki og búnað sem er ódýrari í rekstri. Þetta fólk, bændur í þessari stöðu, borga ekkert minna á kílóvattstund en aðrir. Síður en svo, þeir eru að borga hærra verð en aðrir fyrir rafmagn sem er af miklu lægri gæðum en aðrir hafa aðgang að, þ.e. þriggja fasa rafmagni. Þeir borga hærra verð fyrir minni gæði. Þetta finnst mér óréttlátt og ekki í spilunum raunhæfar stórar aðgerðir sem var lofað í þessari skýrslu, í áliti nefndar um lagningu þriggja fasa rafmagns á landsbyggðinni sem kom út í febrúar 2002. Þá var gerð grein fyrir þörfinni og áætlun þar um. (Forseti hringir.) Ekkert er enn þá í farveginum, frú forseti, um að mæta eigi þeim kröfum og væntingum sem þar voru gefnar.