132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð við lok þessarar umræðu. Ég tel að umræðan hafi verið málefnaleg og ágæt að flestu leyti. Það mætti kannski setja aðeins út á ræðu síðasta hv. ræðumanns en af því að það er orðið svo áliðið ætla ég ekki að fara djúpt í það. Við erum greinilega ekki sammála um þessi mál og það er svo sem ekkert nýtt. En hann minntist á hugsanlegt álver á Norðurlandi sem er í ágætisfarvegi. Það styttist í að það verði gert opinbert hvaða stefnu fyrirtækið Alcoa tekur í þeim efnum.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að Framsóknarflokkurinn hafi aðeins áhuga á að byggja álver. Í raun fer lítill tími í þau mál í iðnaðarráðuneytinu miðað við aðra málaflokka sem við fáumst við, ekki síst á sviði nýsköpunar og þekkingariðnaðar. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að allt gangi út á að einkavæða raforkufyrirtækin, það er ekki þannig. Það er áróður sem hann kýs að hafa uppi. Við erum að markaðsvæða orkufyrirtæki samkvæmt tilskipun sem okkur bar að innleiða hér í lög. Ég hef haldið því fram og mun halda því áfram þar til annað kemur í ljós að þetta hafi tekist allvel hjá okkur. Við höfum vissulega átt í einhverjum byrjunarörðugleikum en á því flestu höfum við reynt að vinna bug.

Að engin leið sé að koma á samkeppni held ég að sé ekki rétt. Hins vegar er það ekki skylda stjórnvalda að láta samkeppnina verða til heldur gera lagaumhverfið þannig að hún geti orðið. Í síðustu viku var ég viðstödd ánægjulegan atburð uppi á Grundartanga en þar var ákveðið skref tekið í sambandi við stækkun álversins. Það var í fyrsta skipti sem orkufyrirtækin Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja gátu samið beint við kaupanda án þess að Landsvirkjun kæmi nokkuð að málum. Þetta var ómögulegt áður en nýju raforkulögin voru sett. Mér finnst að við höfum kannski ekki talað nógu mikið um þetta en það skiptir ekki litlu máli fyrir þessi fyrirtæki. Engu að síður finnast mér fyrirtækin sem ég nefndi, bæði Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja, hafa nálgast þetta mál á mjög neikvæðum nótum allan tímann og ætla ekki að gefa sig með það, eftir því sem mér sýnist. En vegna laganna hafa þau fengið frelsi til að selja raforkuna beint til fyrirtækjanna.

Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að telja upp hverjir hafi hækkað og hverjir lækkað. Ég er búin að fara nokkuð í það í andsvörum. Heilt yfir hefur raforkuverð lækkað en hins vegar hefur það komið misjafnlega út fyrir landsmenn og fyrirtæki í landinu. Upphitunarmálið er mál út af fyrir sig, sem við höfum vissulega tekið á með því að hækka þakið og fara í styrkveitingar sem mótaðar verða reglur um hvernig gera skuli.

Nokkuð hefur komið til umræðu staða þéttbýlis gangvart dreifbýli að þessu leyti og hefur mikið verið vitnað til Súðavíkur í því sambandi. Það var að störfum nefnd sem mótaði tillögur um hvernig þetta skyldi skilgreint. Nefndin var skipuð fulltrúum frá Rarik og Orkustofnun, Byggðastofnun og Hagstofu. Mörkin eru við 200 íbúa mörkin og Súðavík nær ekki alveg þeim mörkum. En auðvitað er þetta ekki heilög tala. Það þarf bara að fara yfir það hvort skynsamlegra væri að hafa þetta með öðrum hætti.

En það var m.a. jákvætt við þessa breytingu að orkufyrirtækin þurftu ekki að standa sjálf í að jafna verð og taka á sig félagslegan kostnað af því að dreifa raforku í mesta dreifbýlinu. Til þess kemur fjármagn af fjárlögum, 230 millj. kr. Þetta þýddi, þar sem þéttbýliskjarnarnir þurftu ekki lengur að borga niður dreifinguna í dreifbýli, að þeir lækkuðu almennt, þéttbýli á landsbyggðinni kom almennt vel út breytingunum.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir velti fyrir sér hvernig ætti að taka á öðrum áfanga rammaáætlunar og hvort einhver brögð væru í tafli. Mér fannst hún hálfpartinn ýja að því en svo er alls ekki, það vil ég fullyrða hér. Við erum hins vegar að nýta gögn til þess að bæta úr um ýmislegt sem varðar fyrsta áfangann. Það er allt hugsað í góðum tilgangi. Hvað þýðir sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda? spurði hún. Ég held að það felist nokkuð í orðunum hvað þetta þýðir. Við leyfum okkur að vera stolt yfir því að geta nýtt þessa endurnýjanlegu orkuauðlind sem vatnsaflið er, jarðvarminn er eitthvað aðeins síðri en líka mjög jákvæður til notkunar á framleiðslu á rafmagni.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson var hér með spurningar í upphafi. Hann velti fyrir sér hlutum sem hann hefur oft nefnt áður sem full ástæða er til að tala um. Ég tek undir það. Það er þetta með sameiningu raforkufyrirtækjanna í eigu ríkisins eða ekki sameiningu og hvort það sé líklegt sé að samkeppni geti myndast ef fyrirtæki eru sameinuð of mikið. Við höfum sagt að þegar ríkið hefur keypt meðeigendur sína út úr Landsvirkjun þá hyggjumst við setja þessa starfsemi undir einn hatt, ekki þannig að Landsvirkjun verði ekki til áfram, að Rarik verði ekki til áfram eða Orkubú Vestfjarða verði ekki til áfram. Meiningin er að það verði eignarhaldsfélag yfir þessum rekstri. Ég tel það mikilvægt, ekki síst til að auka samkeppnina þótt það hljómi ekki skynsamlega. Orkuveita Reykjavíkur er sterkt fyrirtæki á markaði. Til að samkeppni geti orðið hlýtur hinn eigandinn, þ.e. ríkið að hugsa þá hugsun til enda: Hvernig getur ríkið komið sínum eigum fyrir þannig að samkeppnisumhverfi myndist? Fyrirtæki ríkisins eru í sjálfu sér ekki svo mikið að keppa, Rarik er náttúrlega fyrst og fremst dreifingarfyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða. En síðan er Landsvirkjun í framleiðslunni.

Ég er sannfærð um að þetta væri skynsamlegt skref og vona að af því geti orðið áður en langt um líður. Það er hins vegar ekki í þeim tilgangi að selja. Það vil ég fullyrða og verður a.m.k. ekki gert á næstunni og kannski bara alls ekki til langrar framtíðar. Þetta er í raun góð eign fyrir ríkið en einhverjir þjónustuþættir sem eru í þessum fyrirtækjum í dag gætu hugsanlega verið seldir, ég ætla a.m.k. ekki að útiloka það til allrar framtíðar.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að orkugeirinn er mikilvægur. Mér finnst hafa verið mjög spennandi að starfa við raforkugeirann, þær miklu breytingar sem hafa orðið og verið gerðar á kerfinu. Mér finnst þetta hafa verið skemmtileg vinna þótt hún hafi vissulega mætt nokkurri andstöðu, í raun ansi mikilli andstöðu úr ýmsum áttum. En allt mun þetta skýrast betur í tímans rás og á heildina séð tel ég að breytingin hafi tekist ágætlega.