132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nú svo sem ekki í fyrsta skipti sem höfum rætt þessi mál í sölum Alþingis og ég verð að segja eins og er að ég þakka þó fyrir það að mér finnst að málin séu orðin aðeins skýrari og það sé komin sú mynd á þau að maður geti aðeins áttað sig á því hvað menn ætla sér. Ég hafði ekki þá trú í upphafi að það væri meiningin að steypa þessum fyrirtækjum saman en það er greinilegt að það er fullur vilji á bak við það. Það er ekki vilji fyrir því að búa til eitthvað nýtt úr þessum fyrirtækjum sem ég nefndi hérna áðan.

Ég tel að það hefði átt að skoða það betur en gert hefur verið, tel að það sé full ástæða til þess að gera það og endurtek það sem ég hef svo sem gert oft áður hér í sölum Alþingis að ég tel að Rarik og þær eignir sem þar liggja tilheyri sveitarfélögunum í landinu. Þegar kemur að þeirri stundu að hið opinbera hefur innleyst eignarhluti í Landsvirkjun frá Akureyri og Reykjavík tel ég að menn eigi að skoða sig vandlega um með það hvort það eigi ekki að koma eignarhlut í Rarik í hendur þeirra eigenda sem ættu miklu frekar en ríkissjóður að vera eigendur. Þar hef ég verið að vonast til að menn sæju möguleikann í því að búa til öflugt fyrirtæki á þessum markaði sem yrði þá í eigu sveitarfélaganna, alla vega til að byrja með. Ég útiloka það ekki neitt og tel ekkert athugavert við það að það fyrirtæki væri hlutafélag og að sveitarfélögin sem eignuðust í því hlut gætu þá selt hann ef þau teldu sínum hag betur borgið með því.