132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig og hæstv. iðnaðarráðherra greinir á um grunnþætti þessara orkumála þar sem ég tel að orkugeirinn og orkumálin eigi fyrst og fremst að vera félagsleg eign sem á að undirbyggja öfluga búsetu og arðsamt atvinnulíf. Ég deili heldur ekki þeirri skoðun hæstv. iðnaðarráðherra að þessar gríðarlega stóru vatnsaflsvirkjanir sem hafa kannski líftíma upp á 40–200 ár séu sjálfbærar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á annað lífríki, tel það bara ranga nálgun.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um atriði sem ég spurði um í ræðu minni, það var um þrífösun rafmagns meðal annars. Það liggur fyrir skýrsla um þörf á þrífösun rafmagns. Það liggur líka fyrir að þetta er eitt af því sem hamlar uppbyggingu og möguleikum í nýsköpun í atvinnulífi víða í dreifbýlinu, t.d. til sveita þar sem verið er að koma upp margs konar öðrum atvinnurekstri. En þetta gengur svo sorglega hægt og það virðist svo sorglega lítið vera að gerast í þessum málum að ég spyr ráðherra einfaldlega: Á þetta að vera svo? Þetta fólk borgar jafnvel hærra verð fyrir raforkueininguna en fólk sem á aðgang að miklu betra rafmagni, þriggja fasa rafmagni. (Forseti hringir.) Þetta er svo mikið óréttlæti, frú forseti, að … (Forseti hringir.) Ég deili líka skoðun hæstv. forseta því að hún hefur iðulega spurt um þetta líka hér á Alþingi.