132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður man þá væntanlega eftir svari sem ég gaf hv. þm. Drífu Hjartardóttur um þetta efni og hann sá á því svari að það hefur mikið gerst núna upp á síðkastið hvað varðar þrífösun. Sú skýrsla sem ég lét vinna eftir að ég kom í iðnaðarráðuneytið um það hvar þörfin væri mest, sem var unnin í samstarfi við sveitarfélögin, hefur skipt miklu máli því að það er mismikil þörf fyrir þrífösun, það veit hv. þingmaður. Ég tel því að ég hafi beitt mér í þessu og ýmislegt jákvætt hafi verið að gerast, en ég hef líka óskað eftir því að fá upplýsingar um það hvað er núna á döfinni, hvað er fram undan á þessu ári hjá dreifingarfyrirtækjunum eða þeim fyrirtækjum sem hlut eiga að máli og ég trúi því að það sé ýmislegt.

Hv. þingmaður sagði áðan og mig langar að spyrja hann betur út í það, af því að við erum að ljúka þessari umræðu, hann sagði að ég væri í fílabeinsturni með Alcoa. Er þetta nú málefnalegt innlegg í umræðuna? Það kom fram áðan að hv. þingmaður les dagbók mína, því að hann var að vitna til einhvers málsverðar sem ég hefði átt með fulltrúum frá Alcoa, sem er sjálfsagt rétt, ég man það nú ekkert nákvæmlega. En finnst honum nú ekki ómálefnalegt — við höfum jú reynt að vera svolítið málefnaleg í þessari umræðu og það hefur gengið vel — að setja þetta fram við lok umræðunnar? Mér finnst ég ekki eiga þetta skilið.