132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um skýrslu eða samantekt sérfræðinga og yfirmanna sjúkratryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins um réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingum á Íslandi. Úttektina og samanburð á notendagjöldum unnu þeir í vetur. Þar kemur fram veruleg og réttmæt gagnrýni á greiðsluþátttökureglurnar og talið er nauðsynlegt að taka til gagngerrar endurskoðunar allt regluverk um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga — reglurnar verði að endurskoða og einfalda til að tryggja jöfnuð. Þetta eru athugasemdir sem ber að taka alvarlega og bregðast við.

Nú hefur þessi skýrsla verið nokkuð í fréttum. Það hefur verið eftir henni kallað en án árangurs. Hæstv. ráðherra hefur látið hafa eftir sér að hann hafi ekkert á móti því að hún verði birt. Skýrslan var kynnt í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins fyrir helgi. En hvers vegna er ekki búið að birta hana? Hvað er hér til fyrirstöðu, hæstv. ráðherra? Mun þessi skýrsla verða birt og þá hvenær?

Skýrslan fjallar um framkvæmd laga sem sett hafa verið hér á Alþingi og reglugerðir sem Alþingi hefur heimilað hæstv. ráðherra að setja. Sérfræðingarnir, sem best þekkja sjúkratryggingarnar, segja að reglurnar séu orðnar illskiljanlegar jafnvel færustu sérfræðingum og óskiljanlegar almenningi. Um slíkar reglur verði seint mikil sátt.

Þetta kemur mér ekki á óvart og ég vil hrósa sérfræðingunum fyrir frumkvæðið að þessari skýrslu og þessa fínu vinnu, sem má ekki stinga undir stól. Niðurstöðurnar kalla á að skýrslan verði birt og ekki síður að Alþingi bregðist við og taki hana til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég óska hér með eftir því að þessi skýrsla verði kynnt hv. heilbrigðis- og trygginganefnd og tekin þar til ítarlegrar umfjöllunar og að henni lokinni verði hún tekin fyrir á Alþingi.