132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér um ræðir er aðgengileg, bæði hjá okkur og hjá Tryggingastofnun, og getur hver fengið hana sem biður um hana. (Gripið fram í: Er hún á netinu?) Hún er ekki komin á netið en hins vegar er hún aðgengileg og heilbrigðis- og trygginganefnd getur fengið hana hvenær sem vera skal. Ég vil samt taka það fram, þegar þessi skýrsla kemur til umræðu, að hún er meingölluð og ég er ósammála mjög veigamiklum þáttum í henni. Ætlast menn til þess að notendagjöld á öldruðum, börnum eða öryrkjum séu hækkuð til að einfalda kerfið? Er það það sem menn ætlast til? Ég er ósammála þessu. Við erum að ræða skýrsluna og höfum rætt hana á fundi með starfsmönnum Tryggingastofnunar. Við héldum einn fund um hana og ætluðum að halda annan fund áður en hún yrði birt en það er ekkert því til fyrirstöðu að birta hana og ræða hana hvar og hvenær sem er. Ég hef stífar skoðanir á henni en hins vegar getum við vel farið yfir ákveðna þætti í henni sem gætu verið til bóta. En mér er sem sagt ekkert að vanbúnaði að ræða þessa skýrslu hvar og hvenær sem er.