132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar vil ég segja að í ræðu minni vék ég að því að fiskveiðistjórnarkerfi okkar hefði tvíþætt hlutverk. Við þyrftum í fyrsta lagi að horfa til þess að fiskveiðistjórnarkerfið okkar væri hagkvæmt kerfi, það skipti auðvitað mjög miklu máli til lengri tíma. Við þyrftum að vera með fiskveiðistjórnarkerfi, við þyrftum að vera með sjávarútveg, sem getur staðið undir þeim góðu lífskjörum sem við gerum kröfu til.

Jafnframt vakti ég athygli á því að það væri líka pólitískt markmið að fiskveiðistjórnarkerfi okkar legði til þess að reyna að efla byggðirnar í landinu og þess vegna værum við með þessa þrískiptingu. Við værum í fyrsta lagi með almennt aflamarkskerfi og værum síðan með smábátakerfi, sem sannarlega hefði gert sitt til að standa undir öflugum sjávarútvegi víða um landið, og síðan værum við með hrein byggðatengd úrræði.

Ég sagði hins vegar í þessari ræðu að það væri auðvitað mjög erfitt að framfylgja fiskveiðistjórnarkerfi þar sem við reyndum að ná báðum markmiðunum, annars vegar að ná fram hámarksafrakstri af greininni og hins vegar að tryggja það líka að þessi atvinnugrein okkar stæði undir atvinnuháttum á landsbyggðinni. Það væri fráleitt þannig að okkur hefði alltaf tekist vel upp í þeim efnum. Þvert á móti sagði ég í ræðu minni að það hefði ekki alltaf tekist, en það yrði hins vegar áfram okkar pólitíska markmið.

Hvað varðar önnur atriði sem hv. þingmaður nefndi þá var ég ekki með neina eftirgjöf á neinum sviðum. Ég lagði hins vegar mikla áherslu á að við yrðum að ná samkomulagi varðandi norsk-íslensku síldina, það væri mjög óheppilegt og óskynsamlegt og slæmt fyrir okkar atvinnuveg að það tækist ekki — og vitaskuld gerum við okkur grein fyrir því að til að reyna að ná samkomulagi verðum við að teygja okkur til hins ýtrasta. Ég sló ekki neitt af í þessum efnum. Þvert á móti skammaði ég Norðmenn fyrir það hvernig þeir hefðu hegðað sér þegar þeir með einhliða hætti tóku sér rétt langt umfram það sem eðlilegt er og langt umfram það sem samningurinn frá 1996 hefði heimilað þeim.