132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:44]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hún er athyglisverð ræðan sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flutti í Noregi en ég er á því að hann verði að gæta orða sinna. Hann er vanur því hér heima að komast upp með það að slá úr og í og fara í marga hringi í málflutningi sínum fyrir og eftir kosningar en þegar hann er kominn á alþjóðavettvang þá gengur slíkt ekki. Það er staðreynd að von er á stærsta árgangi í síld um árabil og fara að gefa það upp að menn ætli að gefa eftir, mér finnst það fáheyrt.

Mér finnst það líka athyglisvert að gefa villandi upplýsingar um kerfið hjá okkur, kerfi sem er að leggja allt meira og minna í rúst á landsbyggðinni. Segja að einhverra byggðasjónarmiða hafi verið gætt, það er alls ekki svo. Það er alrangt hjá hæstv. ráðherra, frú forseti. Hann ætti að vita það manna best sjálfur, hann þarf ekki annað en að líta í kringum sig vestur á Fjörðum. Það er ömurlegt þegar menn fara út um heimsbyggðina og afflytja fréttir af því sem raunverulega hefur gerst á Íslandi og ég lýsi yfir mikilli furðu á því að hæstv. ráðherra skuli gera það.

Þær breytingar sem hann hefur staðið fyrir nú á síðustu árum hafa einmitt verið til þess gerðar að koma hans byggðum í enn meiri vanda, svo sem þegar hann aflagði sóknardagakerfið. Það er alveg ömurlegt að verða vitni að því að hann flytur ekki eingöngu villandi upplýsingar heldur slær hann úr og í og gefur mögulega eftir í samningum við Norðmenn. Þetta er fáheyrt. Maður ætti náttúrlega að virða það við hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann er nýr í starfi. Hann ætti að leita til okkar í Frjálslynda flokknum og fá leiðsögn um það hvernig hann á að hegða sér. Það gengur ekki að hegða sér eins og hann hefur komist upp með í umræðunni hér að slá úr og í og hegða sér eins og kjáni.