132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi liður, Athugasemdir um störf þingsins, er að verða hálf kostulegur. Hér erum við þingmenn að æsa okkur upp í hástert yfir tveimur málum, notendagjöldum í heilbrigðisþjónustu og norsk-íslenska síldarstofninum. Það er himinn og haf þar á milli, en þetta er nú ansi fyndin umræða.

Ég ætla ekki að tala um norsk-íslensku síldina heldur notendagjöldin og það sem kom fram hér um skýrsluna sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði að ráðherra væri að stinga undir stól. Það er ekki rétt að hæstv. ráðherra sé að stinga einhverju undir stól. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að allir sem vilja sjá þessa skýrslu eigi að gera það og fara yfir hana. Hins vegar er það svo að við þingmenn og stjórnmálamenn höfum auðvitað komið þessu flókna kerfi á og það er flókið vegna þess að við tökum tillit til ákveðinna hópa. Verið er að veita afslátt af notendagjöldum til öryrkja, til aldraðra, til langveikra barna o.s.frv. Að sjálfsögðu flækir það málið, en ef við ætlum að einfalda það þarf væntanlega að afnema afslættina eða minnka þá. Það eru því mörg sjónarmið sem flækja þessi notendagjöld, sem að mörgu leyti er erfitt að leiðrétta, held ég, en það er sjálfsagt að fara yfir það.

Ég tel eðlilegt, virðulegur forseti, að við tökum þetta mál til umræðu í heilbrigðisnefnd. Þar er vettvangurinn fyrir svona umræðu. Við getum fengið þessa skýrslu og við skulum ræða það í nefndinni hvort við viljum taka umræðu um skýrsluna upp þar eða ekki. Ég furða mig svolítið á þessum málflutningi hér, reynt er að gefa út þau skilaboð að hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson sé að fela einhverja skýrslu. Það er bara alls ekki þannig, hann er tilbúinn að ræða þetta mál hvenær sem er við þingheim, eins og hér hefur komið fram, og ég tel mjög eðlilegt að við skoðum það sérstaklega í heilbrigðisnefnd að gera það.