132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:49]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla hefur verið leyniplagg þangað til núna. Það voru fréttir af henni fyrir tveimur vikum og ég er ítrekað búin að kalla eftir því að fá að sjá skýrsluna en fékk hana ekki. Hún var kynnt rétt fyrir helgi í stjórn Tryggingastofnunar og þar var lýst yfir að þetta væri opinbert plagg en engu að síður er hún ekki á vef Tryggingastofnunar ríkisins og hún er heldur ekki á vef heilbrigðisráðuneytisins og fjölmiðlum hefur ekki tekist að fá hana. Ég var reyndar búin að ná mér í hana í gegnum stjórnina þannig að ég gat kynnt mér hana lauslega, (Gripið fram í.) enda var því lýst yfir að hún væri opinbert plagg eins og áður sagði. En það er auðvitað alveg rétt sem hefur komið fram hér að það vantar allt samræmi í reglurnar í sjúkratryggingunum. Þær hafa ekki verið skoðaðar heildstætt fyrir en núna að sérfræðingar skoða þessar greiðslur. Það þarf að taka þetta fyrir á Alþingi þar sem lögin voru sett og þar sem heimildir hafa verið gefnar til að setja þessa greiðsluþátttöku í reglugerðir.

Við eigum auðvitað að skoða þetta mál. Það er ekki rétt að tala um að ég hafi sagt að ráðherra hafi ætlað að stinga skýrslunni undir stól. Ég sagði það ekki. Ég sagði að þetta væru þannig upplýsingar að ekki mætti stinga þeim undir stól. Við verðum að skoða þetta og meta síðan, eftir að hafa farið yfir upplýsingar í skýrslunni frá sérfræðingum, hvernig við viljum hafa reglurnar þannig að þær verði réttlátari og jöfnuður ríki milli þeirra sem þurfa á þessu kerfi að halda. Eins og kerfið er í dag, illskiljanlegt sérfræðingum, óskiljanlegt almenningi, getum við ekki boðið upp á slíkt. Þetta er á okkar ábyrgð. Ég fer fram á það aftur að málið verði tekið fyrir í heilbrigðis- og trygginganefnd, skýrslan skoðuð og rædd (Forseti hringir.) og síðan tekin til umræðu á Alþingi.