132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég sé mig knúna til þess að koma hér upp undir liðnum Um fundarstjórn til að reyna að fá botn í það hvernig best megi nýta þann lið sem í þingsköpum heitir Athugasemdir um störf þingsins. Ég held að þegar tvö mál, ég tala nú ekki um ef þau væru þrjú, eru undir í þessum lið sé það síst til að auka skilvirkni eða skýrleika þeirrar umræðu sem fram fer. Það er á kostnað málefnanna. Ég velti því fyrir mér hvað þeir sem horft hafa á þessa umræðu í beinni útsendingu séu nær um þau mál sem hér voru rædd.

Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að það verði tekið upp í forsætisnefnd og á fundum með þingflokksformönnum að farið verði rækilega yfir það á hvern hátt megi best nýta þennan lið um störf þingsins samkvæmt þingsköpum. Hann hefur verið túlkaður með mjög sveigjanlegum hætti og það er gott. Hins vegar verðum við að hafa það þannig að fólki sé almennt skiljanlegt hvað sé hér til umræðu.