132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir tók það upp hér að verið væri að ræða mörg mál undir þessum dagskrárlið en þannig er nú bara þessi dagskrárliður. Hann er bara um störf þingsins og hver og einn getur tekið upp það sem hann vill ræða. Það sem hefur gerst upp á síðkastið er að þessi liður er orðinn að utandagskrárumræðu, skipulagðri utandagskrárumræðu sem ætti í rauninni að vera undir liðnum Umræður utan dagskrár. Þetta höfum við verið að ræða í forsætisnefnd. Auðvitað þarf að vera einhver dagskrárliður í þinginu þar sem þingmenn geta tekið upp mál og rætt þau, alveg sama hver þau eru. Það á enginn einn rétt á því að taka upp mál undir þessum lið en stjórnarandstaðan virðist líta svo á að þetta sé þeirra dagskrárliður, það er bara þannig, og að ekkert megi ræða nema það sem hv. stjórnarandstaða vill taka upp. Eins og ég sagði þá er þetta í skoðun hjá forsætisnefnd. En þessi liður er ekki utandagskrárumræða þó að búið sé að snúa honum upp í þann lið á hinu háa Alþingi.