132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Fundarstjórn forseta var að sjálfsögðu óaðfinnanleg í þessu máli. En ég kem hingað til að leggja orð í belg því þetta varðar það hvernig við högum þingstörfum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir segir, það hefur sérhver þingmaður rétt til að taka upp þau mál sem hann vill undir þessum lið. Í þeim þjóðþingum sem við höfum mörg heimsótt sem þingmenn blasir það hins vegar við að í þeim langflestum er málum þannig háttað að í upphafi jafnvel hvers dags hafa forustumenn stjórnmálaflokkanna og síðan eftir þeim aðrir almennir þingmenn möguleika á í hálftíma að koma að sjónarmiðum sínum um hvaðeina sem þeim þykir varða hag almennings. Það hefur gert þessi þing lífleg og fjörleg og gerir það að verkum að skoðanaskipti eru örari og meiningamunur á millum stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna eftir atvikum kristallast betur fram. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka þennan hátt hér upp.

Hæstv. forseti hefur þingmanna öflugast beitt sér fyrir því að þingsköpin verði tekin til endurskoðunar. Í ræðu hæstv. forseta, þegar hún var kjörin forseti fyrr á þessu þingi, gerði hún það að sérstöku umræðuefni. Ég held að breyting af þessum toga væri nútímaleg og hún væri líka meira í takt við það hvernig fjölmiðlafregnir hafa þróast af störfum Alþingis. Ég tel af því tilefni sem spratt hérna áðan að þetta ættu þingflokkarnir að sameinast um ef hægt væri. Ég er líka viss um að þessi háttur mundi með vissum hætti hleypa hitanum úr þingmönnum, eins og hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og mér. Það kynni því vel að vera að þingstörfin yrðu fyrir vikið greiðari og auðveldari og við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson héldum hugsanlega færri ræður af öðrum tilefnum.