132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek mjög eindregið undir málflutning hv. málshefjanda, 1. flutningsmanns frumvarpsins, Helga Hjörvars. Hann sagði að það væri alvarleg ákvörðun út af fyrir sig að styðja stríðsaðgerðir og undir það vil ég taka með honum og leggja áherslu á að Ísland er vopnlaust, herlaust land og á ekki að taka þátt í stríðsaðgerðum. Það er hins vegar staðreynd að Ísland er hluti af hernaðarbandalaginu NATO og hefur af þeim sökum, og vegna pólitískrar afstöðu íslenskra ráðamanna á síðustu árum, flækst inn í hernaðaraðgerðir og stutt þær beint og óbeint. Í greinargerð með þessu frumvarpi eru tekin sem dæmi um þetta, bæði hernaðaraðgerðirnar í Kosovo á Balkanskaganum árið 1999 og síðan innrásin í Írak árið 2003. Reyndar má tína til fleiri dæmi, enda vék hv. málshefjandi Helgi Hjörvar að því, árásinni á Afganistan haustið 2001. Þá kom hæstv. þáverandi utanríkisráðherra í ræðustól og sagðist hafa fyrir því óyggjandi sannanir að hryðjuverkasamtökin al Qaeda hefðu borið ábyrgð á hryðjuverkunum og fjöldamorðunum í New York í septemberbyrjun það ár. Ég hef gengið eftir því að fá fram upplýsingar um þessi sönnunargögn hér á þinginu og á opinberum vettvangi í blaðagreinum og mun ganga nánar eftir því í fyrirspurnum á þinginu. Ég nota þetta tækifæri til að boða slíkt.

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa mjög eindregnum stuðningi við þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Hér er verið að slá inn mjög mikilvægan varnagla gegn stjórnvöldum eins og þau hafa hagað sér og vísað er í það í greinargerð með frumvarpinu að vissulega séu slíkir varnaglar fyrir hendi að því leyti að í þingskapalögum sé kveðið á um samráð ríkisstjórnar við Alþingi og þá utanríkismálanefnd áður en þjóðin er skuldbundin á nokkurn hátt. Ég tek undir með hv. málshefjanda að ég, eins og hann, er sannfærður um að þessi lög hafa ekki verið virt í aðdraganda ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að lýsa yfir stuðningi og gera okkur þátttakendur í árásinni á Írak árið 2003. Ég hef kynnt mér málavöxtu mjög rækilega, bæði það sem ráðamenn sögðu í fjölmiðlum á Alþingi og ég hef gengið eftir því að fá upplýsingar um hvað gerðist í utanríkismálanefnd áður en þessi ákvörðun var tekin og hef sannfærst algerlega um að þingskapalög voru brotin í þessu tilviki.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð önnur en þau að ég ítreka mjög eindreginn stuðning við þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga.