132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar alveg sérstaklega fyrir að hafa haft sitt góða frumkvæði að því að leggja fram þetta frumvarp til breytinga á stjórnarskipunarlögum Íslands. Atburðarás síðustu ára hefur sýnt svo ekki verður um villst að það er mikil þörf á því að setja inn í stjórnarskrána ákvæði sem fortakslaust meinar stjórnvöldum að leggja samþykki eða fylgi Íslendinga við stríðsrekstur án þess að fyrir liggi að meiri hluti kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hafi gefið samþykki sitt við því. Hugsanlega var aldrei, eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni þegar hann fylgdi sinni ágætu tillögu úr hlaði, hugsað fyrir þessu á þeim tíma þegar landsfeðurnir 1944 lögðu fram það frumvarp sem síðan var samþykkt af þjóðinni sem stjórnarskrá lýðveldisins. Á þeim tíma voru Íslendingar herlaus þjóð og við höfum alltaf litið á okkur sem herlausa þjóð. Af þeim sökum hefur það verið svo víðs fjarri hugsun Íslendinga að sú staða kynni að koma upp að við mundum hugsanlega leggja okkar formlega stuðning við innrásarstyrjöld gagnvart varnarlausri þjóð víðs fjarri heimalöndum okkar að það var aldrei reifað á hinu háa Alþingi fyrr að þessa væri brýn nauðsyn.

Okkar formlegi stuðningur, sem aldrei skyldi verið hafa við hina skelfilegu innrás í Írak, hefur hins vegar fært okkur heim sanninn um að það er mikil þörf á að reisa traustar skorður við því að landsfeðurnir geti nokkru sinni aftur tekið slíka ákvörðun. Sú atburðarás sem leiddi til þess að Ísland fór á hinn svokallaða lista hinna viljugu, sem við höfum frekar kosið, í stjórnarandstöðunni og víðar, að kalla lista hinna vígfúsu, sýnir að lögin og stjórnarskráin eru ekki nægilega traustverð í þessum efnum.

Hv. þingmenn sem töluðu hér á undan hafa báðir, þ.e. fyrir utan hv. framsögumann, lagt á það sérstaka áherslu að allt bendir til þess að lög hafi verið brotin við þá ákvörðun. Það kemur skýrt fram í lögum að ríkisstjórn Íslands beri að hafa samráð við utanríkismálanefnd þegar hún tekur mikilvægar meiri háttar utanríkispólitískar ákvarðanir. Það samráð var aldrei haft. Miklu fremur má segja að núverandi hæstv. forsætisráðherra hafi í reynd blekkt þjóðina með afstöðu sinni. Við munum að alveg fram að þeim tíma að yfirlýsingin kom fram hafði hæstv. núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sem þá gegndi embætti utanríkisráðherra, lýst því yfir í fjölmiðlum að hann væri að svo stöddu ekki fylgjandi innrásinni. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson sagði þá að hann teldi að gefa ætti vopnaeftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna, undir forustu Hans Blix, lengri tíma til að leita af sér grun.

Hvað var það sem leiddi til þess að Íslendingar tóku þessa ákvörðun og kné hæstv. núverandi forsætisráðherra kiknuðu þegar þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lagðist á hann? Atburðarásin liggur alveg fyrir. Sendiherra Bandaríkjanna hafði samband við hæstv. þáverandi forsætisráðherra og var að skrölta uppi í Stjórnarráði kvöldið og nóttina sem þessi ákvörðun var tekin. Í kjölfarið hefur komið í ljós að hún var tekin án þess að gengið væri úr skugga um að fyrir lægi meirihlutastuðningur ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. landbúnaðarráðherra, sem er varaformaður Framsóknarflokksins, hefur opinberlega deilt á þessa ákvörðun og hann hefur sagt að formlegt samþykki ríkisstjórnarinnar hafi aldrei legið fyrir. Hv. formaður þingflokks framsóknarmanna, Hjálmar Árnason, hefur sömuleiðis áfellst sjálfan sig fyrir að hafa ekki tekið fastar á því máli þegar í ljós kom að ríkisstjórnin hafði bundið formlegt samþykki Íslands við innrásina. Ýmsir aðrir hv. þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa sömuleiðis látið í ljós efasemdir um að þetta hafi verið rétt. Ég dreg í efa að þessi ákvörðun hefði notið samþykkis meiri hluta ef hún hefði verið borin undir Alþingi. Mér er það mjög til efs að meiri hluti íslenskra alþingismanna hefði samþykkt innrásina í Írak á þeim forsendum sem í hana var ráðist og við þær aðstæður sem þá ríktu. Síðar kom í ljós, frú forseti, að ef menn hefðu gefið sér meiri tíma þá hefði uppgötvast að í Írak voru engar forsendur fyrir innrásinni. Við munum að núverandi hæstv. forsætisráðherra og þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins gaf bara eina ástæðu fyrir samþykki sínu við innrásina. Hún var sú að í Írak væri að finna gereyðingarvopn. Í ljós kom að þar var hvorki tangur né tetur af neinum slíkum vopnum og einu merkin um vopn sem hægt væri að fella undir hugtakið gereyðingarvopn voru leifar efnavopna sem búin voru til í Írak með stuðningi bæði Bandaríkjanna og þó sérstaklega Bretlands. Allt var þetta reifað í frægri afsagnarræðu Robins Cooks heitins sem var leiðtogi breska þingsins á þessum tíma og sagði sig úr ríkisstjórninni sökum andstöðu sinnar við Bush. Sá ágæti stjórnmálaskörungur, sem nú er ekki lengur á meðal okkar, lýsti því nákvæmlega að þær upplýsingar sem stjórn Breta hafði þá undir höndum bentu alls ekki til þess að gereyðingarvopn væru í landinu.

Þá spyr ég, frú forseti: Hvernig gætu þá íslensk stjórnvöld hafa komist að þessari niðurstöðu? Jú, þau hafa hugsanlega látið einhverja útlenda sendimenn, hugsanlega sendiherra Bandaríkjanna, ljúga sig fulla um þetta. Ég get ekki fullyrt um það. Hitt fullyrði ég að núverandi hæstv. forsætisráðherra brást þeirri sjálfsögðu rannsóknarskyldu sem á honum hvíldi þá sem forustumanni okkar í utanríkismálum, því að hann gerði ekkert til að ganga úr skugga um hvaða hald væri í þeim upplýsingum sem hann taldi benda til að gereyðingarvopn væri að finna. Hann hefði t.d. í krafti aðildar Íslands að Sameinuðu þjóðunum geta leitað sér upplýsinga beint hjá yfirmanni vopnaeftirlitsins, Hans Blix. Það gerði hann ekki.

Því miður, frú forseti, var þessi atburðarás öll hin hraklegasta og það má segja að hún hafi loksins náð nýjum hæðum eða hugsanlega nýrri lægð þegar hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir fyrr á þessum þingvetri í viðtali við Blaðið að hefði hann á þeirri stundu sem hann tók ákvörðunina ásamt Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, haft í höndum þær upplýsingar sem síðar hafa komið fram hefði hann ekki gefið samþykki sitt við innrásinni í Írak. Með öðrum orðum, frú forseti, það er ekki hægt að draga aðra ályktun af orðum og yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra en þá að hann telji nú að það hafi verið stórfelld mistök af sér að hafa samþykkt að Ísland styddi innrásina í Írak. Það er ákaflega mikilvægt að hafa þetta fyrir framan okkar sem óhagganlega staðreynd þegar við ræðum þetta mál í dag, ekki vegna þess að við getum skrúfað söguna til baka og bætt fyrir þær misgerðir sem við höfum unnið, heldur vegna þess að þetta sýnir í hnotskurn að sú tillaga sem hv. þm. Helgi Hjörvar hefur reifað á Alþingi í dag á meira en fullan rétt á sér. Hún er beinlínis brýn nauðsyn til að koma í veg fyrir að tveir menn, án rannsóknar, án þess að hafa nokkrar upplýsingar, beinlínis bindi heila þjóð eins og okkur, herlausa og vopnlausa og hlutlausa, við innrás í fjarlægt ríki. Það má aldrei verða aftur, frú forseti. Það er af þessum sökum sem tillaga hv. þm. Helga Hjörvars og annarra þingmanna Samfylkingarinnar á beinlínis brýnan rétt á því að hljóta samþykki Íslendinga og Alþingis.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér stendur hálfvegis stuggur af því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki koma á hið háa Alþingi til jafnmikilvægrar umræðu og við erum að heyja í dag. Hér er verið að ræða grundvallaratriði. Hér er verið að reifa og ræða tillögu sem beinlínis byggist á því að reyna að koma í veg fyrir að þau mistök sem þessir menn, forustumenn stjórnarflokkanna, hafa gert sig seka um verði endurtekin. Ég hefði viljað hafa hæstv. utanríkisráðherra viðstaddan þessa umræðu, formann Sjálfstæðisflokksins, til að fá tækifæri til að spyrja hann hvort hann sé sömu skoðunar og hæstv. forsætisráðherra lét uppi í haust að innrásin í Írak hefði verið mistök, því það er eitt af því sem við eigum eftir að fá svör við á hinu háa Alþingi áður en hægt er að leggja það mál endanlega til hvílu.

Að lokum, frú forseti. Við Íslendingar berum vegna þessarar löglausu, siðlausu ákvörðunar tveggja forustumanna íslensku þjóðarinnar okkar siðferðilegu ábyrgð á þeim hörmungum sem innrásin hefur kallað yfir Írak. Því má ekki gleyma.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna. Ef forseti heyrði rétt þá talaði hann um löglausa og siðlausa ákvörðun forustumanna ríkisstjórnar.)

Frú forseti. (Gripið fram í: Málið var ekki kynnt fyrir utanríkismálanefnd.) Ég hef í ræðu minni sem hefur staðið núna á annan tug mínútna fært fyrir því sterk rök að sú ákvörðun sem hinir tveir forustumenn sem ég hef hér nefnt tóku án samráðs við Alþingi sé löglaus. Sú skoðun mín hefur mörgum sinnum verið kynnt á hinu háa Alþingi og forsetar hafa aldrei sett ofan í við mig fyrir það áður. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem sett hefur verið ofan í við mig af forseta Alþingis á 15 ára þingmennskutíð. Það liggur alveg ljóst fyrir, og ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hæstv. forseta, að í lögum um þingsköp segir fortakslaust að hafa beri samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkispólitískar ákvarðanir. Ég hef aldrei á þingferli mínum staðið andspænis nokkurri ákvörðun stjórnvalda sem hægt er að segja að sé alvarlegri eða dýpri en þessi ákvörðun. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki var haft samráð við hv. utanríkismálanefnd. Það hefur mörgum sinnum komið fram í þessum sölum, það hefur verið rætt í utanríkismálanefnd og við höfum farið og skoðað fundargerðir utanríkismálanefndar og það liggur alveg ljóst fyrir eftir þá rannsókn, og því hefur ekki verið mótmælt, að þetta var ekki gert. Það er af þeim sökum sem ég get ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu, hvað sem tilfinningum og viðhorfum hæstv. forseta líður, að þetta var löglaus ákvörðun. Ég tel það, ég tel að lög hafi verið brotin.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að þegar þjóð tekur þátt í styrjöld vitandi vits, eins og við gerðum með formlegu samþykki ráðamanna, hljótum við að bera siðferðilega ábyrgð á þeim hörmungum sem sú styrjöld leiðir af sér. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að í breska læknaritinu The Lancet hafa verið birtar rannsóknir sem benda til þess að af völdum styrjaldarinnar í Írak, sem þó er ekki lokið, hafa fast að 100 þúsund írakskir borgarar dáið, flestir saklausir. Ég tel að Íslendingar beri á því móralska ábyrgð. Fyrir mína hönd var þessi ákvörðun tekin að mér forspurðum en ég get samt ekki sem íslenskur þegn skotið mér undan þeirri ákvörðun. Ég hef hins vegar reynt að skýra hana á alþjóðavettvangi. Ég tók t.d. þátt í því að auglýsa ákveðna afstöðu í bandarísku stórblaði til að skýra það að þrátt fyrir að Íslendingar hefðu formlega verið bundnir við þessa ákvörðun þá væri vilji þjóðarinnar, a.m.k. fjölmargra þegna hennar, allt annar.

Frú forseti. Ég tel því í fyrsta lagi að tillaga hv. þm. Helga Hjörvars sé brýn og eigi ríka þörf og í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar sem ég sagði áðan, og verða það mín lokaorð, að þessi ákvörðun var löglaus og hún var siðlaus.