132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:50]
Hlusta

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði á orði að einkennilegt væri að forustumenn ríkisstjórnarinnar væru ekki hér til viðræðu um jafnmikið grundvallarmál og breytingu á stjórnarskránni sem lyti að mikilvægum ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefði tekið. Ég held að það sé engin ástæða til að undrast. Ég held að við vitum öll að þeir skammast sín fyrir innrásina í Írak og þeir eru löngu hættir að geta varið hana, stjórnarliðarnir á Alþingi. Hún er viðkvæmt mál, svo viðkvæmt mál að hér varð hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrir því í fyrsta sinn á 15 ára ferli sínum á Alþingi að vera áminntur fyrir að kalla þetta stríð löglaust og siðlaust. Það er greinilega viðkvæmt að fjalla um þessa ákvörðun og það er eðlilega viðkvæmt vegna þess að það er óeðlilegt að einn eða tveir menn geti tekið þá ákvörðun fyrir heila þjóð að eiga aðild að innrásarstríði. Öðru máli gegnir um sameiginlegar varnarskuldbindingar okkar Atlantshafsbandalagsþjóðanna þegar verið er að verjast árásum, en að einn eða tveir menn geti tekið ákvörðun um að ráðast gegn alþjóðalögum og án samráðs við utanríkismálanefnd, inn í annað ríki eða styðja innrás inn í annað ríki eins og gert var í málinu varðandi Írak sýnir okkur svo að ekki verður um villst að við höfum allt of veika lagaumgjörð um grundvallarákvarðanir eins og þessar.

Ég held að við ættum kannski ekki að elta allt of mikið ólar við það sem gerst hefur í fortíðinni. Ég held að allir skynsamir menn geti verið sammála því að mikilvæg ákvörðun eins og innrás í annað ríki sem getur haft í för með sér dauða tugþúsunda manna, jafnvel hundruð þúsunda manna, getur haft áhrif á öryggi þess ríkis sem ákveður að eiga í innrásinni eða styðja innrásina, getur leitt til hefndaraðgerða o.s.frv., sé ekki tekin nema að undangenginni vandaðri rannsókn og umfjöllun í æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga. Ég er auðvitað ekki í neinum vafa um það að innrásin í Írak hefði ekki þolað neina rannsókn þjóðþings Íslendinga. Ég held að Alþingi sé of vant að virðingu sinni til að hér hefði nokkurn tíma fengist þingmeirihluti fyrir málinu þó að það sé að vísu þannig að þegar ákvörðunin hafði verið tekin og tilkynnt á alþjóðavettvangi hnekkja stjórnarliðar á þingi, vegna skyldurækni, hollustu og trúfestu, ekki þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið. Það þýðir hins vegar alls ekki að þeir hefðu stutt ákvörðunina ef hún hefði verið borin undir þingið áður en yfirlýsingarnar voru gefnar.

Um margt höfum við í löggjöf okkar talið okkur vera saklausa þjóð, hlutlausa og herlausa langt norður í höfum og fjarri heimsins vígaslóð, eins og skáldið sagði. En það er auðvitað ekki þannig í sísmækkandi heimi. Það sýna þær ákvarðanir sem við höfum á síðasta áratug ítrekað tekið um að styðja og eiga aðild að stríðsaðgerðum. Það sýnir það að við höfum átt vopnaða menn á erlendri grund, í alþjóðaliði á vegum alþjóðlegra stofnana, í kjölfar stríðsaðgerða. Við höfum átt sprengjuleitarmenn í Írak, friðargæsluliða í Afganistan o.s.frv. Við höfum tekið ákvörðun um að styðja árásirnar á Kosovo, við höfum tekið ákvarðanir um að styðja innrásina í Írak.

Það er nauðsynlegt að við lærum af þeim mistökum sem gerð voru með stuðningsyfirlýsingunni við innrásina við Írak sem var tekin í andstöðu við 85% þjóðarinnar, sem var trúlega tekin í andstöðu við þingmeirihluta — að við lærum af þeirri ákvörðun að við þurfum í æðstu réttarheimild íslenska ríkisins, stjórnarskrá Íslands, að kveða skýrt á um það að slíkar ákvarðanir verða ekki teknar nema fyrir tilstuðlan Alþingis og með ályktun Alþingis. Slíka ályktun getur auðvitað meiri hluti þingsins gert. Á því er enginn vafi og til þess kann að þurfa að koma. En það er mikilvægt að sú ákvörðun sé upplýst, hún sé tekin eftir gaumgæfilega skoðun. Við sjáum á þeim ríkjum í kringum okkur sem hafa slík lög að þar eru slíkar ákvarðanir ræddar og rannsakaðar í þaula af þjóðþingum áður en ákvarðanir eru teknar. Mörg dæmi þess á undanliðnum áratug, og auðvitað enn fleiri lengra aftur í söguna, eru um að þjóðþing hafi lagst gegn því að eiga aðild að aðgerðum, ýmist af siðferðilegum ástæðum, pólitískum eða af ástæðum er varða öryggi ríkisins eða ótta við hefndaraðgerðir, hafa neitað um afnot af flugvöllum, þing sem hafa neitað um afnot af lofthelgi sinni, ríki sem hafa neitað um birgðaflutninga um yfirráðasvæði sitt og auðvitað synjað um aðild og stuðning við stríð.

Um það eru fjöldamörg dæmi og ég held að þegar horft er á þær ákvarðanir sem ein þjóð getur tekið hljóti þrjár að vera hinar þýðingarmestu. Ein er um fullveldið, önnur er um stjórnskipunina sjálfa, þ.e. lýðræðið, og hin þriðja er að fara með stríð á hendur annarri þjóð. Um þessar grundvallarákvarðanir hlýtur æðsta lýðræðisstofnunin í lýðræðisríki eins og Íslandi að þurfa að fjalla og þó að við höfum, herlaus þjóð 1944, ekki borið gæfu til að kveða á um það í stjórnarskránni eigum við að læra af reynslunni og sögunni og festa það nú í stjórnarskrá landsins þannig að aldrei verði aftur tekin ákvörðun um jafnafdrifaríkar aðgerðir á jafnveikum forsendum og gegn jafnstórum meiri hluta íslensku þjóðarinnar eins og ákvörðun Davíðs Oddssonar, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, um að gera okkur að einni hinna viljugu eða þurfandi þjóða sem studdu Bandaríkjamenn í innrásinni í Írak.