132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[14:59]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla, og er flutningsmaður ásamt mér hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Frumvarp þetta er ekki mikið að vöxtum en það varðar réttlæti háskólanema. Það gengur út á það að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum verði óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla, og þar með án skólagjalda.

2. gr. í frumvarpinu er lagatæknilegs eðlis og 3. gr. varðar gildistöku en í greinargerð kemur fram að frumvarpið hafi verið lagt fram á síðasta löggjafarþingi og hafi ekki orðið útrætt. Því er það endurflutt óbreytt.

Forsaga þessa máls er sú að á síðasta löggjafarþingi fóru í gegn lög um afnám laga um Tækniháskóla Íslands sem gengu út á það að Tækniháskóla Íslands var í raun og veru breytt í einkahlutafélag með Háskóla Reykjavíkur. Samruni þessara tveggja skóla kallaði á afar mikla umræðu í þingsölum um sjálfsögð réttlætismál sem tengjast skólagjöldum. Ástæðan var sú að ákveðin námsbraut Tækniháskóla Íslands fyrrverandi var með breytingunni lokuð inni í einkahlutafélagi sem krefst skólagjalda af nemum sínum. Tæknifræðin, sú námsgrein sem um ræðir, er ekki kennd í öðrum háskólum án skólagjalda svoleiðis að þar með lítum við, flutningsmenn þessa frumvarps, svo til að þar með séu þeim sem vilja leggja stund á þessa ákveðnu námsgrein lokaðar leiðirnar nema þeir telji sér fært að greiða þau skólagjöld sem upp eru sett í viðkomandi stofnun.

Frú forseti. Háskólinn í Reykjavík sem Tækniháskólinn heyrir nú undir innheimtir á þessu skólaári um 200 þús. kr. í skólagjöld af nemum sínum í fullu námi. Það stendur til að hækka það um 20 þús. kr. á næsta ári, þ.e. þá verða það 220 þús. kr. sem hver nemi greiðir. Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum þetta allsendis óásættanlegt. Til að tryggja jafnrétti til náms teljum við að ævinlega verði að vera í boði allar námsgreinar sem kenndar eru hér á landi án þess að fólk sé knúið til að greiða skólagjöld fyrir þær.

Æ fleiri atvinnugreinar gera kröfur um háskólapróf. Sívaxandi hluti hvers kyns náms hérlendis er á háskólastigi og það bendir allt til að sú þróun haldi áfram og að með tímanum verði háskólanám af einhverju tagi lokaáfangi í allri almennri menntun ef að líkum lætur. Af þessu leiðir að menntun verður stöðugt mikilvægari sem lykill að fjölbreyttum atvinnutækifærum og að sama skapi enn þýðingarmeiri fyrir atvinnulíf og samfélag. Jafnrétti til náms er því að mati okkar sem flytjum þessa tillögu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lykillinn að jöfnum tækifærum.

Skólagjöld eru í eðli sínu andstæð þessari jafnréttishugsjón okkar. Sé litið á þær námsleiðir sem nú eru í boði á háskólastigi hérlendis er ljóst að þó nokkuð vantar upp á jafnrétti í þessu tilliti. Tilefni frumvarpsins er einkum sú ákvörðun menntamálayfirvalda að leggja Tækniháskóla Íslands niður og færa stærstan hluta þess náms sem þar er í boði undir einkahlutafélag sem leggur skólagjöld á nemendur. Með þessari breytingu verði jafnrétti til náms í tæknigreinum á Íslandi skert verulega að okkar mati.

Sömuleiðis er getið um það í greinargerðinni að Listaháskóli Íslands sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins innheimti skólagjöld en á yfirstandandi skólaári nema þau tæpum 200 þús. kr. á ári fyrir 3–4 ára nám í tónlist, myndlist, leiklist, hönnun og arkitektúr sem ýmist lýkur með BA- eða BFA-gráðu. Þess vegna má gera ráð fyrir því, eins og segir í greinargerð, að hver nemandi í Listaháskóla Íslands verði að reiða fram milli 600 og 800 þús. kr. í skólagjöld fyrir háskólagráðu sína. Við getum þess að rétt sé að hafa einnig til hliðsjónar við meðferð alls þessa máls að þá þurfi að athuga hvort endurskoðun þessa þáttar í lögunum um háskóla sé réttlætanleg eða eigi að fara fram svo að það sama gildi um alla opinbera háskóla í þessum efnum.

Við flutningsmenn teljum afar brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að rýra möguleika háskólanema eða stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er sem sagt að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms og teljum við þetta samrýmast menntastefnu þeirri sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur nýverið endurnýjað og var samþykkt endurnýjuð á síðasta landsfundi flokksins.

Að öðru leyti vísa ég varðandi þetta mál til þeirra athugasemda sem ég gerði á síðasta ári þegar við fjölluðum um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Þau sjónarmið má kynna sér í nefndaráliti 2. minni hluta menntamálanefndar sem ég ritaði undir og er að finna á þskj. 796 frá síðasta löggjafarþingi.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar til umfjöllunar.