132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:11]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það kemur auðvitað ekki á óvart að tveir hv. þingmenn Vinstri grænna skuli flytja frumvarp sem felur það í sér að þrengja að háskólastarfi undir því yfirskini að með því sé verið að jafna rétt manna. Oftast næst er það nú svo að þegar þrengt er að hlutum hefur það þveröfug áhrif við það sem lagt er til því að reglustikumenn og þeir sem vilja hafa allt í hendi sér og þykjast sjá hluti fyrir hafa einatt og raunar oftast rangt fyrir sér.

Í þessu frumvarpi er lagt til, með leyfi hæstv. forseta, að ný svohljóðandi málsgrein bætist við 3. gr. laga um háskóla:

„Sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla.“

Eins og ég skil þessa grein, hæstv. forseti, gengur jafnaðarhugsjón þessara hv. þingmanna svo langt að þau vilja frekar að ekki sé kostur á því að stunda ákveðið nám ef það hefur í för með sér að þeir sem leggja stund á námið þurfa að greiða nokkur skólagjöld. Þá vilja þeir fremur að námsgreinin sé ekki kennd. Þetta er auðvitað ótrúleg þröngsýni en út af fyrir sig er ágætt að frumvarp af þessu tagi komi fram til að skýra þann mun sem er á stefnu stjórnmálaflokka hér á landi og ég geri raunar ráð fyrir því að sá flokkur sem stendur næst Vinstri grænum í litrófi stjórnmálanna, Samfylkingin, muni vera á sömu skoðun. Þingmenn Samfylkingar hafa lýst mjög eindregið yfir andstöðu við skólagjöld á háskólastigi. Þó þori ég ekki að fullyrða um það en ég sé að hér er einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar staddur sem oft telur ekki eftir sér að stíga í ræðustól, hv. þm. Suðurnesja Jón Gunnarsson.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að rifja upp síðustu málsgrein greinargerðarinnar:

„Flutningsmenn telja brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms.“

Frumvarpið er ekki lagt þannig upp, heldur þannig að betra sé að námsgreinin sé ekki kennd heldur en að menn eigi kost á henni fyrir nokkur skólagjöld. Eins og greinin er orðuð blasir það bersýnilega við.

Ég sá að hv. þingmaður hristi höfuðið svo að kannski er ástæða til að endurtaka málsgreinina eins og hún liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla.“

Þetta felur í sér að það á að reyna að hamla gegn því að sjálfseignarstofnanir og einkareknir skólar geti tekið upp nám í greinum sem ekki eru kenndar í ríkisskólum.