132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:21]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sá þáttur í ræðu hv. þingmanns sem varðaði þetta frumvarp var endurtekning á því sem áður var sagt, að fyrir hv. þingmanni vakir að setja hömlur við því að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytt nám ef það kostar það að viðkomandi þurfi að greiða skólagjöld. Þarna erum við á öndverðum meiði og er ekkert við því að segja.

Hitt atriðið, að stjórnarandstaðan komi með útgjaldatillögur við fjárlög, er ekkert óvenjulegt. Stjórnarandstaðan velur sér eitt og annað hverju sinni. Stundum þykir stjórnarandstöðunni rétt að flytja enga útgjaldatillögu til að lýsa andstyggð sinni á stefnu ríkisstjórnar. Stundum er allt löðrandi í tillögum um aukin útgjöld. Þannig lá á Vinstri grænum við afgreiðslu síðustu fjárlaga að þeim þótti rétt að leggja til aukin útgjöld. Það var þeirra pólitíska mat að það væri rétt. Má vera að þeir uni vel við sinn hlut og þyki sem þeir hafi staðið sig vel (Gripið fram í.) en auðvitað getur það ekki gengið að einhverjir dyntir ráði því hvernig menn afgreiða fjárlög. Þetta veit hv. þingmaður eins og ég.

Hitt er rétt sem hv. þingmaður segir að það verður auðvitað að tryggja það að Háskólinn á Akureyri hafi eðlilegan rekstrargrundvöll.