132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla í örstuttu máli að taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál. Tillagan sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram er allrar athygli verð og tilgangurinn er ákaflega góður. Hann er sá að allir eigi jafnan kost á háskólanámi hér á landi. Ég er í grundvallaratriðum sammála því að reyna eigi að gefa fólki kost á að verða sér úti um mikla menntun. Ég hef áður lýst þeirri skoðun í þessum sal að ég tel að eitt af því sem auðgi íslenskt samfélag sé sú staðreynd að Íslendingar sækja mjög til þekkingarbrunna í öðrum heimsálfum og af því að við erum á mörkum heimsálfa þá er það þannig að hér er oft suðupottur nýrra hugmynda, bæði að vestan og austan. Þetta er mjög jákvætt.

Ég hef velt mikið fyrir mér skólagjöldum og ég er í grundvallaratriðum mjög óhress með skólagjöld. Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að efla og treysta ríkisháskólana eins og hægt er, sérstaklega í þeirri samkeppni sem þeir standa núna í. Auðvitað eru nýju háskólarnir að byggja sig upp og hafa af þeim sökum fengið góðan stuðning hjá ríkinu og ég sýti það ekki. Margir þeirra eru að gera góða hluti. Ég hef líka sagt að ef verið er að styðja slíka skóla eigi ekki bara að gera það sökum kennslunnar sem þeir inna af höndum heldur líka rannsóknanna. Enginn háskóli stendur undir nafninu akademía nema hann sinni líka rannsóknum.

Þá er komið að þeim vanda hvernig hægt sé að sætta tilvist Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Kennaraháskólans og annarra háskóla hins opinbera andspænis háskólum sem ég vil ekki kalla einkarekna heldur sjálfseignarháskóla. Ég er þeirrar skoðunar að það nám sem menn eiga þar kost á auki val námsmannsins. Þá er spurning hvort sú staðreynd að þar eru háskólagjöld komi í veg fyrir að menn geti notfært sér þetta val og í sumum tilvikum er það efalaust svo.

Ég hef þess vegna, svo ég reyni að reifa hugmyndir mínar í mjög stuttu máli og vonandi kjarnyrtu, komist á þá skoðun að bjóða eigi upp á ókeypis nám við opinberu háskólana þannig að menn eigi kost á því að ljúka þar ekki bara grunnnámi heldur líka framhaldsrannsóknarnámi. Ég var einu sinni þeirrar skoðunar að hugsanlega væri hægt að gera málamiðlun um að slíkt nám greiddi skólagjöld en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki fundið rökræna brú í því. Ég tel hins vegar að ekki eigi að leggja stein í götu þeirra skóla sem á annað borð vilja bjóða upp á slíkt sérnám með skólagjöldum. Ég tel aftur á móti að ekki sé hægt að gera það með öðrum hætti en að líka verði komið upp styrkjakerfi sem er þannig að ýmsir sem vilja sækja þá skóla án þess hugsanlega að eiga sömu von og allir aðrir sem í þá sækja að geta greitt há námslán aftur til baka, eigi að njóta slíkra styrkja. Ég er t.d. að hugsa um þá staðreynd að háskólamenntað fólk sem er að einhverju leyti fatlað býr við fimm sinnum hærra atvinnuleysi en aðrir akademískir borgarar. Slíkt fólk getur ekki vænst þess að greiða til baka skólagjöld og námslán með sama hætti og aðrir og ég tel að það eigi að setja upp einhvers konar styrkjakerfi fyrir það og sömuleiðis fyrir unga, einstæða foreldra sem eru með töluverða ómegð og geta hugsanlega ekki heldur vænst þess að geta greitt slíkt niður.

Í grundvallaratriðum er ég þeirrar skoðunar að það eigi ekki að tálma vöxt þessara skóla í þessa veru þó ég sé reiðubúinn til að rökræða það og skoða það. Þetta er skoðun mín og niðurstaða mín eftir að hafa skoðað þetta töluvert vel.

Ég held að það skipti máli að menn hafi valfrelsi. Grundvallartilgangurinn með tillögu þeirra ágætu þingmanna sem hér mæltu fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að fjárhagsaðstæður stýri ekki valinu eða komi í veg fyrir að menn geti notfært sér þetta nám. Ég held að þessar aðferðir, þar sem ákveðnum hópum sé gert að njóta þessa vals ef þeir vilja með því að styrkja þá sérstaklega til þess, sé hugsanlega leið til að sætta þessi sjónarmið.

Ég vil líka draga fram að ég er þeirrar skoðunar að ókeypis menntun eigi að vera í boði af hálfu íslenska ríkisins, alveg frá leikskóla og til loka æðstu námsgráðu, þ.e. að þeir sem ljúka doktorsnámi á Íslandi eigi ekki að þurfa að greiða fyrir framhaldsnámið og það get ég rökstutt með öðrum rökum. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir framvindu atvinnulífs eins og því er hagað að þekkingin sem verður til í því námi skili sér sem best inn í samfélagið. Það er hagur okkar að halda þessu fólki í landinu þannig að sú þekking sem það býr yfir komi strax til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf en erlendar þjóðir hafi ekki forskot á hæfni þess. Það er reynsla mín, eftir að hafa sjálfir farið í gegnum slíkt nám og unnið við sama bekk og borð og mörg ágæt doktorsefni, að það er á þessu skeiði ævinnar sem vísindamaðurinn býr oft til þær hugmyndir sem hann er að vinna úr alla sína ævi. Það eru aukin rök fyrir því að framhaldsnám ríkisháskóla verði jafnan ókeypis.