132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:29]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli gefa hér þá yfirlýsingu sem hann gerði að hann væri orðinn þeirrar skoðunar, og ég ímynda mér að það sé sameiginlegt sjónarmið Samfylkingarinnar, að það eigi ekki að innheimta skólagjöld í mastersnámi í Háskóla Íslands. Mér finnst það afar mikið fagnaðarefni.

Ég tek líka undir með hv. þingmanni varðandi fjölbreytnina í námi. Ég hef alltaf fagnað hverju einasta nýja tækifæri sem íslenskir háskólastúdentar hafa til fjölbreytni í námi. Ég er alveg sátt við að það séu sjálfseignarstofnanir eða einkaskólar sem hafi tækifæri til að vera í flórunni ásamt með Háskóla Íslands. Ég er hins vegar algerlega sannfærð um að Háskóli Íslands á að vera þjóðskóli. Hann á að vera fyrir alla og allir þeir sem vilja stunda háskólanám eiga að geta haft þar mikið val um nám sem ekki krefst skólagjalda. Mér finnst ósanngjarnt að ákveðnar greinar geti verið lokaðar inni í sjálfseignarstofnunum og einkaskólum þannig að einstaklingar sem vilja læra án þess að greiða skólagjöld af því að þeir vilja ekki fara út í stórskuldir og taka há námslán eigi þess kost að læra allar helstu greinar án þess að þurfa að greiða fyrir það skólagjöld. Ég tel að tæknigreinarnar sem lokaðar voru inni í Háskólanum í Reykjavík í fyrra , þegar lögunum var breytt og lögin um Tækniháskóla Íslands voru afnumin, eigi að standa til boða þeim stúdentum sem þær vilja læra án skólagjalda. Það er ekki svo í dag. Það er kveikjan að þessu frumvarpi.