132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:36]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér var ekki alveg ljóst hver var afstaða hv. þingmanns til þessa frumvarps sem hér liggur fyrir. Á hinn bóginn kom fram í ræðu hans að hann telur að við opinbera háskóla eigi að bjóða upp á ókeypis nám, hvort sem það er mastersnám eða doktorsnám eða hverju nafni sem nefnist. En hv. þingmaður áttaði sig á því um leið og hann sagði það að þetta mundi auðvitað hafa það í för með sér að draga yrði úr slíku námsframboði í hinum ríkisrekna háskóla og þess vegna bætti hann við að auðvitað yrðu námsbrautirnar fáar, voldugar en fáar, í hinum ríkisrekna háskóla sem þýðir að hann hugsar sér að ríkisreknu háskólarnir bjóði upp á mjög fábreytilegt nám miðað við alla flóruna sem háskólanám yfirleitt býður upp á, en einkaskólarnir skuli þá annast það sem sértækara er og þá standa undir því með skólagjöldum að sínu leyti.

Þetta er athyglisvert. Eins og ég skil hv. þingmann þá þýðir þetta með öðrum orðum að hann er sammála mér um að frumvarpið eins og það er lagt hér fram vinnur gegn því að menn geti aflað sér þeirrar háskólamenntunar hér á landi sem hugur þeirra stendur til ef sú háskólamenntun er á sértæku sviði eða fitjað er upp á einhverju nýju.