132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:42]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög ánægjulegt að hlýða á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og heyra að við erum sammála um að nám frá leikskóla upp í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla eigi að vera gjaldfrjálst. Það finnst mér afar jákvætt að heyra frá hv. þingmanni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar.

Ég get líka verið honum sammála um að það er mjög mikilvægt að við leitum okkur þekkingar utan landsteinanna. Hins vegar lendir maður í dálítið einkennilegri stöðu, t.d. ef stundað er myndlistarnám, eins og ég gerði, að þurfa að borga skólagjöld í skólanum hér á Íslandi. Síðan fór ég til Þýskalands í framhaldsnám, í mastersnám, og þar voru engin skólagjöld og algjörlega gjaldfrjáls skóli. Hið sama gildir í mörgum tilfellum fyrir vestan okkur í Kanada eða á Norðurlöndunum og þetta finnst mér vera mjög jákvætt.

Nú er það auðvitað þannig að námsmenn eru líka hvattir til að fara til náms í löndum þar sem himinhá skólagjöld eru tekin, t.d. í Bretlandi. Þá höfum við sem betur fer Lánasjóð íslenskra námsmanna sem hleypur undir bagga. Reyndar er það nú svo að lánin sem Lánasjóðurinn veitir eru oft ekki bara lán vegna þess að maður greiðir þau til baka sem hlutfall af tekjum. Myndlistarmenn t.d. hafa yfirleitt ekki það háar tekjur að þeir geti borgað námslánin upp þannig að þau koma þá út í raun og veru sem styrkir.