132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:01]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var leið hv. þm. Jóns Gunnarssonar að tefja ekki fyrir málinu. Hann er nú farinn að setja mark sitt hér á þingið með mjög sérkennilegum samanburði á hinum ýmsu þáttum og auðvitað verður frekar að taka þetta meira sem skemmtigildi en einhverja alvöru að hlusta á þennan þingmann tala hér. Farið var út um víðan völl og það er allt í lagi. Það er málfrelsi hér og menn geta hagað sér nákvæmlega eins og þeir vilja í ræðustól, það er ekki bannað.

Hér var talað um þetta sem skattheimtu, eins og þingmenn Samfylkingarinnar hafa stundum gert. Stundum hafa þeir talað um aukatekjur ríkissjóðs sem skattheimtu. Stundum hafa þeir líka á öðrum vettvangi þegar um sambærileg gjöld er að ræða talað um þær sem þjónustugjöld.

Hér var spurt, af hverju þetta en ekki eitthvað annað? Fyrst þið voruð að flytja þetta frumvarp, af hverju tókuð þið ekki allt milli himins og jarðar? Og vitnað var í ljósritunargjöld, tannréttingar og tannlækningar og hvað það var allt saman sem þingmaðurinn ruddi upp úr sér og vildi fá svör við því af hverju í ósköpunum að sá sem hér stendur hafi ekki komið með tillögur um einhverjar breytingar á þessu. Því er einfaldlega til að svara að þetta mál hefur ákveðinn tilgang. Sá er að auðvelda fólki að setja á stofn sinn eigin atvinnurekstur. Ég held að við eigum aldrei gleyma því að mjög mikilvægt er að þeir þröskuldar séu eins lágir og mögulegt er.

Þingmaðurinn talaði um að þetta mætti ekki vera of lágt. 40.000 kr. er held ég ágætisupphæð fyrir þjónustu sem þessa. Menn geta haft aðrar skoðanir á því. Aðalatriðið er að við eigum að skapa aðstæður í þjóðfélaginu í skattalegu tilliti eins og öðru svo hér verði auðvelt að fara út í nýsköpun (Forseti hringir.) og frumkvöðlastarfsemi.