132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:03]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þótt hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson sé kvefaður vona ég að hann reyni að halda uppi hinni landsfrægu léttu lund sinni þannig að við verðum ekki fyrir vonbrigðum í þingsal þegar við ræðum þetta frumvarp til laga sem hann er 1. flutningsmaður að.

Það er nú einu sinni svo hér í þingsal að þingmenn verða að hlusta á þá þingmenn sem eru í ræðustól hvort sem þeim líkar betur eða ver. Þó að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson telji það einhverja pínu að þurfa að hlusta á mig í ræðustól, þá er það nú einu sinni þannig að ef hann situr í þingsalnum og vill taka þátt í þingstörfum ber honum að gera það og hlusta kannski á það sem sagt er. En það leggur hann oft ekki í vana sinn. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Ég var að bera saman og spurði hv. þingmann hvernig á því stæði að á sama degi kæmu fram tvö frumvörp til breytinga á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, annað frá hæstv. fjármálaráðherra en hitt frá hópi ungra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem gengju í þveröfuga átt. Annars vegar væri hæstv. fjármálaráðherra að ná í auknar tekjur í gegnum aukatekjur ríkissjóðs án þess að koma með rök fyrir því að kostnaðurinn hafi aukist sem neinu næmi. En hins vegar eru fimm hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flytja þetta frumvarp að koma fram með tillögur um að lækka beri verulega skráningargjald á að stofna hlutafélög og rekstrarfélög í kringum atvinnurekstur.

Eitt er það í frumvarpinu sem vert væri að spyrja um en það er að skráningargjald fyrir loftfar til atvinnuflugs á að lækka úr 66.000 kr. í 40.000 kr. Það þarf endilega að fara að lækka skráningargjald á flugvélar í atvinnuflugi væntanlega vegna þess að hagnaður af þeim fyrirtækjum sem stunda atvinnuflugrekstur á Íslandi er lítill og þarf að koma til móts við lítilmagnann.

Þegar maður horfir á hvernig ríkisstjórnin hækkar skatta kerfisbundið á einstaklinga hlýtur maður að lyfta annarri augabrúninni þegar ungir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma með frumvarp til laga um að lækka verulega gjöld á atvinnurekstur.