132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:05]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að ég sem og aðrir þingmenn sem tökum þátt í umræðum sem þessari verðum að gjöra svo vel og hlusta á viðkomandi þingmann. Það er nú bara þannig. Það er eitthvað sem fylgir starfinu. Ég lagði mikið á mig til að komast í þetta starf og átta mig alveg á því að þetta er ekki bara dans á rósum. Við þurfum líka, virðulegi forseti, að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar ræða t.d. um skattamál. Þar er alveg línan sú að segja nógu oft: Ríkisstjórnin hefur hækkað skatta. Alveg blákalt. Hafa skal það sem hljómar betur. Sannleikurinn skiptir engu máli en maður má bara taka þátt í þessari umræðu. Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, maður verður að hafa létta lund til að fara í gegnum svona lagað. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir. (Gripið fram í: Og mikinn húmor.) Já, og mikla kímnigáfu. Það getur gert þetta starf einstaklega skemmtilegt ef maður lítur á þetta frá ákveðnu sjónarhorni þegar maður situr hér og hlustar á hv. þingmenn Samfylkingarinnar.

En hvað sem því líður, ef þingmaðurinn í fullri alvöru hefur áhuga á að vita af hverju þetta frumvarp er flutt þá er ég að vísu búinn að fara nokkuð oft í gegnum það. Ég veit ekki hvort á að trúa því í alvöru að hv. þingmaður líti þannig á aukatekjur ríkissjóðs að það sama eigi yfir allt að ganga með slíkt. Eins og þetta sé sami hluturinn. Þetta séu bara einar aukatekjur kannski. Þetta eru afskaplega margvísleg gjöld. Að það sé einhver frétt að tvö frumvörp hafi verið lögð fram, annað sem snýr að hækkun á aukatekjum ríkissjóðs, þá verður hv. þingmaður að vera ósammála mér ef honum finnst að það hafi verið óskynsamlegt af fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp þar. Það kom mér mjög á óvart hvað þau gjöld voru lág sem verið var að hækka. Ég veit ekki hvort þingmanninum í fullri alvöru finnist það vera ósanngjörn gjöld sem verða tekin eftir þá breytingu. (Forseti hringir.) En ég hef flutt öll þau rök sem liggja (Forseti hringir.) fyrir varðandi þetta mál og ég get gert það aftur og mun glaður hlusta áfram (Forseti hringir.) á ræðu hv. þingmanns, virðulegi forseti.