132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:12]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir málefnalega ræðu þar sem hann hitti algerlega naglann á höfuðið þegar hann ræddi efni frumvarpsins. Hann minntist hins vegar á hlut sem menn hafa minnst á í tengslum við þetta, þ.e. að menn hafa áhyggjur af kennitöluflakki, og það er raunverulegur vandi. Mín skoðun er sú að við eigum að nota aðrar leiðir og við höfum gert það til að koma í veg fyrir slíkt. Það hefur sem betur fer, t.d. í opinberum útboðum og öðru slíku, verið fylgst betur með að greitt sé í lífeyrissjóð og menn standi skil á opinberum gjöldum og öðru slíku til að koma í veg fyrir kennitöluflakk, sem gerir ekkert annað en að eyðileggja fyrir heiðarlegu fólki í atvinnulífinu. Við verðum að vera mjög vakandi fyrir því.

Ég er algerlega sammála hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að það að lækka þröskuldinn fyrir aðila sem eru að stofna sitt fyrsta fyrirtæki, og þó það sé ekki það fyrsta, gerir nýsköpun í atvinnulífinu auðveldari. Ég er alveg sammála honum. Skoðun mín er sú að betra sé að fara þá leið að lækka skatta fyrir aðila en að búa til flókið styrkjakerfi. Því eins og hv. þingmaður nefndi felst mikil vinna í að útbúa slíkt og oft ekki mikið upp úr því að hafa. Þess vegna hefur núverandi ríkisstjórn og fyrirrennarar hennar gengið í það að lækka mjög skatta á fyrirtæki. Þegar ríkisstjórnin tók við var tekjuskattur á fyrirtæki 50% en búið er að fara með hann núna niður í 18%. Það er auðvitað ein af mörgum ástæðum fyrir því að hér hefur gengið jafn vel í atvinnulífi og raun ber vitni. En þess ber að geta að við höfum alltaf þurft að berjast gegn Samfylkingunni og fyrirrennurum hennar þegar hefur komið að þessum málum. Því þegar kemur að skattamálum eru þeir fylgjandi háskattastefnu hvort sem það er á einstaklinga eða fyrirtæki og fer ég nánar í það á eftir.