132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:01]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ég er stoltur yfir því að vera einn flutningsmanna tillögunnar. Eins og kom fram í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar er þetta hið besta mál og hefði mátt ganga hraðar, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan, en það er eins og það sé einhver tregða í menntamálaráðuneytinu.

Það er hárrétt að menntamálaráðherra hefur skipað nefnd til að kanna þessi mál. Það kemur fram í greinargerðinni að öll rök hníga að því að stofnaður verði sjálfstæður framhaldsskóli á svæðinu, við utanverðan Eyjafjörð. Það þarf ekki að kanna það í mörg ár í viðbót heldur þarf að hefjast handa, því fyrr því betra. Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að þetta verði sjálfstæður skóli. Það hefur einmitt verið rætt um að þetta yrði útibú Verkmenntaskólans á Akureyri eða Menntaskólans á Akureyri. Ég held að það sé langheillavænlegast að þetta sé sjálfstæður skóli með starfsstöð á svæðinu. Mér finnst auðvitað eðlilegast að hún verði miðsvæðis og þá staðsett á Ólafsfirði. Það yrði í framtíðinni stutt frá Siglufirði og stutt frá Dalvík.

Ég þekki nokkur dæmi þess að fjölskyldur hafi flutt frá Ólafsfirði til Akureyrar þegar börnin komust á framhaldsskólaaldur. Það getur gerst hjá fjölskyldu að jafnvel þrír nemendur fari á sama tíma í framhaldsskóla. Það er ærinn kostnaður fyrir eina fjölskyldu ,að senda þrjú börn í framhaldsskóla. Þau eru fjarri foreldrahúsum á meðan og þurfa að leigja sér íbúð eða vera á heimavist, greiða mötuneytisgjald og allt sem því fylgir. Það getur verið heilmikill baggi á einni fjölskyldu. Við vitum að fátt styrkir byggðirnar meira en að fólkið á svæðinu geti stundað nám, grunnnám og framhaldsnám, á svæðinu.

Við höfum dæmi um slíka framlengingu á námsframboði með háskólanáminu á Akureyri. Hvílík gífurleg lyftistöng það hefur verið á Akureyri og allt svæðið, allan Eyjafjörð. Það teygir sig jafnvel lengra og er afar mikilvæg vítamínsprauta. Oft hefur verið talað um það að Háskólinn á Akureyri sé stóriðja svæðisins.

Ég hef einmitt líka lagt áherslu á það í þingsal að stofna beri háskóla á Ísafirði og á Egilsstöðum, ekki aðeins háskólasetur heldur fullbúna háskóla. Það mun sýna sig að þeir skólar vaxa og dafna líkt og Háskólinn á Akureyri sem annar ekki eftirspurn. Hins vegar er tregða hjá menntamálaráðuneyti, hæstv. menntamálaráðherra og einnig hæstv. fjármálaráðherra, til að styðja almennilega við þetta nám. Síðast í morgun efndu nemendur Háskólans á Akureyri til fundar til að mótmæla sinnuleysi stjórnvalda og niðurskurði. Mótmælin beindust ekki aðeins gegn ríkisstjórninni heldur einnig meiri hluta í bæjarstjórn Akureyrar sem er duglaus í því að verja Háskólann á Akureyri.

Það er mikill og víðtækur stuðningur á Eyjafjarðarsvæðinu við stofnun framhaldsskóla. Ég legg áherslu á að þetta verði skóli með fullbúið nám, fjögurra ára nám til stúdentsprófs og að drifið verði í að koma þessum skóla upp. Það yrði ríkisrekinn skóli eins og langflestir framhaldsskólar í landinu og það er afar mikilvægt. Þetta er ein besta byggðastefnan sem við getum séð fyrir okkur. Við höldum fjölskyldum og fólkinu lengur, sköpum störf á svæðinu og nemendur koma ferskir út á vinnumarkaðinn, sem hefur margfeldisáhrif á atvinnulífið. Öll þjónusta í kringum svona stofnun er yfirleitt vanmetin. Ég held að það liggi á þessu máli og vona að menntamálanefnd Alþingis drífi í að koma því áfram svo að hægt verði að afgreiða þessa þingsályktunartillögu á vorþingi og að við megum sjá, jafnvel á næsta ári, stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.