132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Kosningar til Alþingis.

73. mál
[17:52]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum sem eru efnislega samhljóða og varða breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5 frá 1998, með síðari breytingum, og breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24 frá 2000, með síðari breytingum.

Ásamt mér flytja hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Sólveig Pétursdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Hjörleifsson, Ásta Möller og Gunnar Örlygsson þetta mál sem meðflutningsmenn.

Þessi litlu mál varða einvörðungu þær reglur sem gilda samkvæmt kosningalögum um aðstoð til handa fötluðum í kjörklefa á kjörfundi til kosninga til sveitarstjórna og hins vegar til Alþingis. Ábendingar hafa komið fram um að nauðsynlegt sé að koma til móts við þá sem sakir sjónleysis eða af öðrum ástæðum vegna fötlunar sinnar geta ekki sjálfir greitt atkvæði á kjörfundum og að gerð verði breyting á núgildandi reglum. Varða þessar breytingar annars vegar 63. gr. laganna um kosningar til sveitarstjórna og hins vegar 86. gr. laganna um kosningar til Alþingis. Hér er á ferðinni mál sem felur í sér réttarbót fyrir þessa hópa en ætti ekki að leiða af sér miklar pólitískar deilur á hinu háa Alþingi.

Ef við víkjum að þeim ákvæðum sem ég nefndi þá er það þannig samkvæmt 63. gr. núgildandi laga um kosningar til sveitarstjórna og 86. gr. laga um kosningar til Alþingis að þeim, sem ekki er fær um að neyta kosningarréttar síns með þeim hætti sem önnur ákvæði laganna kveða á um sakir sjónleysis eða þess að hendur kjósenda eru ónothæfar, er tryggður réttur til þess að nefna sér til aðstoðar fulltrúa úr viðkomandi kjörstjórn til þess að aðstoða sig við að kjósa. Sá sem aðstoðina veitir er samkvæmt núgildandi lögum bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem á milli hans og kjósandans fer þegar kosið er. Þá gerir núgildandi löggjöf ráð fyrir að um aðstoðina og ástæður hennar sé bókað í kjörbók ásamt því að það skilyrði er sett að sá sem aðstoðina hlýtur geti með ótvíræðum hætti greint frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt.

Með þessum frumvörpum er ekki lagt til að sá réttur sem ákvæði núgildandi 63. gr. laganna um kosningar til sveitarstjórna og 86. gr. laganna um kosningar til Alþingis verði skertur heldur verði meginregla ákvæðisins sú að þeim sem vegna sjónleysis eða vegna þess að hendur þeirra eru ónothæfar til þess að þeir geti án aðstoðar kosið á þann hátt sem ákvæði laganna kveða á um skuli heimilað að nefna hvern þann sem þeir kjósa sjálfir að nefna til þess að aðstoða sig við kosningar til sveitarstjórna, svo sem maka, afkomendur eða aðra nákomna aðila, svo dæmi séu nefnd.

Virðulegi forseti. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er kjósendum úr þeim hópi sem hér um ræðir og ég hef nefnt óheimilt að ráða því sjálfir hver aðstoðar þá við að neyta kosningarréttar síns. Gerir löggjöfin ráð fyrir því að þeir kjósendur sem um ræðir geti einungis nefnt til aðstoðar fulltrúa úr viðkomandi kjörstjórn.

Það segir sig náttúrlega sjálft að þetta fyrirkomulag er nokkuð óheppilegt fyrir þá sem þurfa að grípa til þessara aðgerða vegna þess að allar líkur eru á því þegar menn þurfa að velja sér einhvern úr kjörstjórninni þá sé það kosinn aðili í kjörstjórninni, en einhver sem viðkomandi þekkir ekki. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að breyting verði gerð þarna á.

Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að hafi kjósandi ekki uppi neinar sérstakar kröfur eða óskir um það hvaða aðili aðstoði sig við að neyta kosningarréttar síns sé honum engu síður tryggður sami réttur til aðstoðar og núgildandi ákvæði 63. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna mælir fyrir um sem og núgildandi ákvæði 86. gr. laganna um kosningar til Alþingis. Felur frumvarpið því í sér aukin réttindi fyrir þá borgara sem ýmist vegna sjónleysis eða fötlunar er ókleift að neyta kosningarréttar síns án aðstoðar.

Það þarf í sjálfu sér ekkert að setja hér á langar ræður um að kosningarrétturinn felur í sér einhver mikilvægustu einstaklingsbundnu og borgaralegu réttindi í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þá er það jafnframt viðurkennt að eðlilegt og sanngjarnt sé að stjórnmálaskoðanir borgaranna fari leynt. Með þessu frumvarpi telja flutningsmenn að þessi réttindi séu tryggð umfram það sem núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Frumvörpin gera jafnframt ráð fyrir að þeir sem þannig háttar um að þeir geti ekki kosið fái sjálfir að ákveða hverjir aðstoði sig. Það hafa komið fram kvartanir um það að fólk sem svona háttar um þyki óeðlilegt að það geti ekki tekið maka sína eða börn sem komin eru til vits og ára til að annast þessa þætti fyrir sig.

Við fyrstu sýn virðist þessi breyting sem lögð er til hér á kosningalöggjöfinni vera lítilsverð. En það er nú samt sem áður þannig að þetta eru atriði sem skipta verulegu miklu máli fyrir fatlaða og þann hóp sem 63. gr. laganna um kosningar til sveitarstjórna og 86. gr. laganna um kosningar til Alþingis varða. Menn hljóta að sjá það ef þeir setja sig í spor þeirra sem hér um ræðir.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er þetta ekki hápólitískt mál. Það varðar eingöngu framkvæmd á kosningum fyrir lítinn tiltekinn hóp. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur ætti að setja sig upp á móti þeirri reglu sem þar er lögð til, í hvaða flokki sem viðkomandi er.

Ég vonast líka til að þessi frumvörp hljóti hraða afgreiðslu í nefndum þingsins, þ.e. í hv. allsherjarnefnd, og sömuleiðis hér innan hins háa Alþingis því eins og við vitum er gert ráð fyrir því að landsmenn gangi til sveitarstjórnarkosninga í lok maímánaðar, eftir nokkra mánuði. Ég tel mikilvægt að þessi frumvörp verði orðin að lögum fyrir þær kosningar.

Ekki þarf svo sem að eyða mörgum orðum í það að verði þessi frumvörp að lögum þá munu þau ekki fela í sér neinn kostnað fyrir ríkissjóð. Þetta er einföld breyting sem hefur engan kostnað í för mér sér. Þetta eru tillögur sem, ég hygg, að allir ættu að geta sammælst um og, ég segi enn og aftur, varða lítinn hóp, en hóp sem telur þetta skipta verulegu máli fyrir sig þegar að kosningum bæði til sveitarstjórna og Alþingis er komið.

Virðulegur forseti. Að svo búnu legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr. að atkvæðagreiðslu lokinni.