132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Átaksverkefni í ferðamálum í Norðvesturkjördæmi.

65. mál
[18:03]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um átaksverkefni í ferðamálum í Norðvesturkjördæmi sem ég er flutningsmaður að. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að hefja skuli stórátak til uppbyggingar á grunnstoðum sjálfbærrar ferðaþjónustu í Norðvesturkjördæmi og verja til þess umtalsverðu fjármagni ár hvert næstu fimm árin. Samgönguráðuneyti skal skipa fimm manna faghóp sem beri ábyrgð á framgangi átaksins og úthlutunum styrkja til verkefna undir merkjum átaksins. Skal einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, einn af Fjórðungssambandi Vestfjarða, einn af Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, einn af ferðamálabraut Hólaskóla og einn skipaður af ráðherra án tilnefningar.“

Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er því lögð fram að nýju. Ferðaþjónustan er sá atvinnuvegur landsmanna sem nú vex hvað hraðast og skilar mestri aukningu gjaldeyristekna til þjóðarbúsins ár hvert. Frá árinu 1990 til 2002 fjölgaði erlendum ferðamönnum um 96 af hundraði. Fjölgunin milli áranna 2002–2003 var 14,2% og sú sama fyrstu tíu mánuði ársins 2004. Miðað við þá þróun er búist við að fjöldi erlendra ferðamanna geti þrefaldist á næstu 10 árum. Reyndar var fjölgunin á síðasta ári, 2005, nokkru minni en undanfarin ár og er það fyrst og fremst rakið til hinnar óhagstæðu gengisþróunar fyrir ferðamálaatvinnuveginn og einnig þeirra ríkisdrifnu stóriðjuframkvæmda sem núverandi ríkisstjórn stendur að og gerir ferðaþjónustunni mjög erfitt fyrir. Ég kem að þessu síðar í ræðu minni, herra forseti.

Enginn vafi leikur á því að ef ferðaþjónustan á að geta brugðist við svo mikilli fjölgun erlendra gesta á svo skömmum tíma, og einnig nýtt þá atvinnumöguleika sem því tengjast, verður að dreifa ferðamannastraumnum um landið í mun meiri mæli en nú gerist. Það kallar á víðtæka uppbyggingu, aukna afþreyingarmöguleika og öflugra markaðssetningarstarf í öðrum landshlutum en þeim sem hingað til hafa státað af fjölsóttustu áfangastöðum ferðamanna á Íslandi. Þau landsvæði sem eru til umfjöllunar í þessari tillögu hafa samanlagt einungis 10,4% markaðshlutdeild þegar litið er til heildarfjölda skráðra gistinátta á árinu 2003 og aðeins 7,4% ef litið er til erlendra ferðamanna eingöngu. Það gefur því augaleið að álagið á byggðir Norðvesturkjördæmis er lítið í þessu tilliti og mælir það mjög með því að ráðist verði í aðgerðir þannig að þessi hluti landsins geti með góðu móti tekið við umtalsverðum hluta ferðamannastraumsins á komandi árum.

Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Vestfirðir allir suður um Breiðafjörð, Dalir, Snæfellsnes og Borgarfjörður hafa upp á mikla möguleika að bjóða í þjónustu við ferðamenn. Margir þeirra hafa lítið sem ekkert verið nýttir þótt annars staðar sé uppbyggingin lengra á veg komin. Svæðið státar af fjölbreyttri náttúru og lífríki sem laðar nú þegar til sín ferðafólk í vaxandi mæli. Jafnframt er þar að finna fjölmarga merka sögustaði og menningarlandslag sem ekki á sína líka í öðrum landshlutum. Til þess að þessar auðlindir geti nýst svæðinu sem best á sjálfbæran hátt er nauðsynlegt að gera samræmda úttekt á möguleikunum. Skilgreina þarf gildi og aðdráttarafl einstakra sögustaða eða náttúruvætta og þolmörk þeirra til að taka á móti gestum, búa þá staði út og markaðssetja á samræmdan, fyrir fram ákveðinn hátt. Lenging ferðamannatímans er því sérstakt átaksverkefni á þessu svæði.

Mikil vinna hefur þegar verið unnin af samtökum og einstaklingum á svæðinu þannig að hægt er að ráðast í aðgerðir þegar á næsta ári ef ákvörðun er tekin um það. Ferðaþjónusta á dreifbýlum svæðum eins og Norðvesturlandi byggist á mörgum en smáum einingum, oft hlutastörfum eða sem árstíðabundin viðfangsefni. Ekki er því hægt að ætlast til að einstaklingar eða lítil fyrirtæki geti lagt fram fjármagn til slíks grunnstarfs sem er þó forsenda fyrir heildina til að byggja upp atvinnuveginn. Má minna á að grónir atvinnuvegir eins og sjávarútvegur og landbúnaður búa að gríðarlegum höfuðstól í markaðsstarfi, vöruþróun, rannsóknum og annarri stoðþjónustu sem samfélagið í heild hefur byggt upp með þessum atvinnugreinum. Sama má segja um ýmsar iðngreinar, svo sem stóriðju, þar sem miklir fjármunir hafa verið lagðir til af hálfu hins opinbera og fyrirtækja í eigu þess til að byggja upp þann atvinnuveg.

Ýmsir hlutar Norðvesturkjördæmis standa höllum fæti í hinum hefðbundnu atvinnugreinum og er ekki séð að þangað verði sótt veruleg aukning atvinnutækifæra þó sjálfsagt sé að byggja þá upp og efla eins og kostur er. Hins vegar er ljóst að ferðaþjónustan á mikla ónýtta möguleika á svæðinu. Efling hennar er því nærtækasta úrræðið til að auka staðbundna fjölbreytni í atvinnulífi sem og svæðisins í heild. Í þessu sambandi má vitna til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Flug og ferðaþjónusta á Íslandi: Umfjöllun í tilefni af beiðni Ryanair um lækkun gjalda á Keflavíkurflugvelli, en í þeirri skýrslu segir: „Ferðaþjónustan skapar aukna fjölbreytni í bæði afþreyingu og atvinnulífi fyrir þjóðina sjálfa, sér í lagi á landsbyggðinni. … Um leið og ferðamönnum fjölgar skapast aukið svigrúm að þessu leyti og verslunar- og þjónustufyrirtæki spretta upp sem þjóna heimamönnum en ættu samt ekki tilverugrundvöll ef ferðamenn væru ekki til staðar. Þessi áhrif ferðamennskunnar hafa byggst upp á undanförnum árum og eru mjög auðsjáanleg um leið og komið er út fyrir Reykjavík, með veitingastöðum, kaffihúsum, söfnum og ýmsum afþreyingarfyrirtækjum sem hafa auðgað mannlífið með ýmsum hætti jafnframt því að skapa fjölbreytni í atvinnulífi. Ferðaþjónustan er í þessu tilliti mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina vegna þess að hún byggir á notkun staðbundinna aðfanga sem ekki er hægt að flytja úr stað, svo sem náttúrufegurð. Búseta á landsbyggðinni var upphaflega grundvölluð á einhverju hagræði í nýtingu staðbundinna framleiðsluhátta.“

Vægi þessara staðbundnu framleiðsluhátta, svo sem fengsælla fiskimiða og blómlegra landbúnaðarhéraða, hefur minnkað allmikið í seinni tíð samfara aukinni vélvæðingu og bættum samgöngum. Framtíð margra þéttbýliskjarna sem byggðust upp í kringum landbúnað og sjávarútveg á sínum tíma veltur á því að þeir nái að nýta og varðveita sérstöðu af einhverju tagi. Um þetta segir í fyrrnefndri skýrslu:

„Lausnirnar hljóta að felast í því að styrkja hlutfallsyfirburði viðkomandi staða með aðgerðum sem hvorki fela í sér nauðung eða óhagkvæmni. Þetta er hægt að gera með því að auðvelda stöðunum að færa sér í nyt staðbundna framleiðsluþætti og styðja við sérhæfingu. Ferðaþjónusta er eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann en náttúrufegurð, sögulegar minjar og svo framvegis verður að telja til mjög mikilvægra staðbundinna gæða sem gætu staðið undir byggð víða um landið. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr mun hefðbundin vinnsla og atvinnulíf í tengslum við landbúnað og sjávarútveg ekki nægja ein og sér til þess að fólki fjölgi aftur á landsbyggðinni.“

Það er niðurstaða skýrsluhöfunda að það gæti verið „verjandi fyrir hagkvæmnissakir að stjórnvöld niðurgreiddu ferðamannastraum til landsins utan háannar þegar fjárfestingar í greininni eru vannýttar. Og þá einkum til að beina ferðamannastraumnum frá Reykjavík til landsbyggðarinnar. Ef það heppnaðist væri jafnað álagið á innviðum landsins og búsetuskilyrði á landsbyggðinni bætt með hagkvæmum hætti.“

Til þess að svo megi verða þarf að styrkja grunnstoðirnar og markaðsstarfið sem rakið hefur verið hér að framan. Þessari tillögu er ætlað að taka á því máli af alvöru.

Herra forseti. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru síðan línurit og töflur sem sýna fjölda ferðamanna til Íslands og dreifingu gistinátta og ferða um landið. Ferðaþjónustan og uppbygging hennar vítt og breitt um landið hefur einmitt verið ein af áherslum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem nýtir staðbundnar auðlindir á sjálfbæran hátt eins og hérna hefur verið rakið. Það svæði sem hér er verið að tala um, norðvestursvæðið, er svæði sem á að mörgu leyti undir högg að sækja í uppbyggingu atvinnulífsins og því er hér lagt til að gert verði sérstakt átak hvað það varðar. Bæði er þarna um miklar vegalengdir að ræða og mikið dreifbýli en engu að síður gríðarlega fjölbreytta náttúru, menningu og sögu sem svo sannarlega vantar stuðning til að geta byggt upp þjónustu við og til að skapa sterkari almennan grunn fyrir atvinnugreinina sjálfa til að byggja á, á samkeppnishæfan hátt.

Við höfum byggt upp gríðarlega mikilvæga stoðþjónustu í kringum aðrar atvinnugreinar. Ég nefndi hér landbúnað, fiskveiðar og ýmsar iðngreinar þar sem byggður hefur verið upp fjölþættur stoðgrunnur. Ég minni á alla leiðbeiningarþjónustuna, ég minni á þær miklu rannsóknarstofnanir, menntastofnanir o.s.frv. sem byggst hafa upp, má segja, í aldanna rás sem eins konar stoðgrunnur fyrir þær atvinnugreinar. Nú ver hið opinbera hundruðum milljóna ef ekki milljörðum annars vegar beint frá ríkinu og hins vegar frá fyrirtækjum í eigu ríkisins til að byggja upp eina tegund iðnaðar, sem er áliðnaður. Ríkið kemur þannig á margan hátt að við að styrkja grunn ákveðinna atvinnugreina. Ég er reyndar ekki sammála þeim stuðningi en það er ekki til umræðu hér.

Ferðaþjónustan þarf virkilega á eflingu stoðþjónustu að halda, grunn sem gefur síðan möguleika fyrir samkeppnishæfan atvinnurekstur. Þó að þessi tillaga snúi fyrst og fremst að Norðvesturkjördæmi er það engu að síður stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að efla stoðgreinar ferðaþjónustunnar um allt land. Eitt það allra mikilvægasta til að taka á í atvinnumálum þjóðarinnar nú, ekki síst hvað það varðar að halda landinu í byggð, er að treysta stoðþjónustuna sem byggir á staðbundnum auðlindum, nýtingu þeirra og verndun á sjálfbæran hátt.

Herra forseti. Í lokin vísa ég til ályktunar aðalfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi 30. október 2004 þar sem einmitt er ályktað í þessa veru:

„Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vex nú hvað hraðast og skilar mestri árlegri aukningu í nettó gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Ferðaþjónustan er nú orðin ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar og skilar 40–50 milljörðum króna í gjaldeyristekjur á ári. …

Styrking ferðaþjónustunnar er eitt nærtækasta verkefnið til að auka fjölbreytta atvinnu á svæðinu sem heild. Til þess að svo megi verða þarf að styrkja grunnstoðirnar og markaðsstarfið, en þar vantar fjármagn sem eðlilegt er að hið opinbera leggi til.“ — Þegar greinin er svo vanburða hvað fjármagn varðar en í ályktun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir: — „Fyrir einn milljarð á ári í fimm ár má lyfta grettistaki í atvinnumálum þeirra landshluta sem mynda kjördæmið.“

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessari tillögu verði vísað til hv. samgöngunefndar sem fer með ferðamál.