132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það eru vissulega athyglisverðar athugasemdir sem koma fram í matsskýrslu Fitch-fyrirtækisins sem birt var í gær. Að sumu leyti koma þær á óvart og að öðru leyti ekki. Þær komu á óvart vegna þess að það eru aðeins þrjár vikur síðan að Moody's-matsfyrirtækið staðfesti lánshæfismatið með stöðugum horfum. Þær koma síðan hins vegar ekki á óvart vegna þeirrar umræðu sem verið hefur undanfarin missiri um mikla útlánaaukningu og auknar lántökur hjá bönkunum samfara skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga og viðskiptahallanum.

Vissulega er um að ræða gagnrýni á ríkisfjármálin í þessari skýrslu. Það má segja að sú gagnrýni sé tvenns konar, annars vegar á skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, og athyglisvert að Fitch skuli staðfesta að um sé að ræða skattalækkanir og að þær hafi áhrif í hagkerfinu, og hins vegar gagnrýni á það að ríkisstjórnin skuli hvorki með beinum né óbeinum hætti leitast nægjanlega við að hafa áhrif á markaðinn, áhrif á þensluna og ákvarðanir í viðskiptalífinu. Það er vegna þess, eins og þar kemur fram, að ríkisstjórnin hefur talið að viðskiptalífið og markaðurinn hafi kraft og getu og vilja til að bregðast við aðstæðum sem þessum.

Þau atriði sem þarna eru gagnrýnd eru að segja má grundvallaratriði í þeim árangri sem höfum náð í efnahagslífinu að undanförnu, þ.e. skattalækkanir og aukið frjálsræði í viðskiptalífinu. Það er auðvitað vandi að snúa frá því nú þegar við nálgumst toppinn í hagsveiflunni og eigum frekar von á lægri hagvexti á næsta ári en nú hefur verið.