132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þær hræringar sem núna eru á fjármálamarkaðnum koma í sjálfu sér ekki á óvart, það sem við veltum frekar fyrir okkur er hvað gerist í framhaldinu.

Viðvörunarorð sem koma frá þessu erlenda matsfyrirtæki á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru í sjálfu sér ekki ný. Þau eru nákvæmlega sömu viðvörunarorð og við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum verið með hér. Þau eru nákvæmlega sömu viðvörunarorð og atvinnulífið, ferðaþjónustan, fiskvinnslan, útgerðin, hátækniiðnaðurinn, allar útflutningsgreinarnar hafa verið með nákvæmlega sömu viðvörunarorð en ríkisstjórnin hefur keyrt á mjög harðri ríkisvæddri stóriðjustefnu.

Þegar talað er um ríkisafskiptin er ekki verið að benda á ríkisfjármálin, það er mesti misskilningur. Bent er á hin gríðarlegu ríkisafskipti sem fara nú fram í stóriðjunni, í virkjunarframkvæmdunum þar sem ríkisfyrirtækjum er beitt. Kallað er eftir stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum, breytingu sem felur það í sér að styrkja stöðu útflutningsgreinanna og jafnframt að hverfa af þessari ríkisvæddu stóriðjubraut. Jafnframt er það líka góð áminning, eins og hæstv. fjármálaráðherra minntist á, að skattalækkunarstefnan sem kemur alfarið hátekjufólkinu til góða er röng. Það er það sem verið er að gagnrýna og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra skilji gagnrýnina. Ég er ekki viss um að fyrirtækið sé að mæla með þeim hlutfallslegu skattahækkunum sem lægstu tekjurnar verða fyrir. Öll þessi atriði hafa verið nefnd áður en það er ástæða til að krefjast þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) skipti hér um og breyti stefnu.