132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:18]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að taka þessi skilaboð mjög alvarlega því að núna á einum sólarhring eða svo hefur gengisvísitalan hækkað um sem nemur u.þ.b. 9%. Þetta er vitaskuld mikil breyting á mjög skömmum tíma. En það verður að taka á þessu af yfirvegun og festu og menn verða að vanda mjög það sem sagt er í þessari umræðu því að hún hefur áhrif á markaðinn. Menn verða því að taka þessi skilaboð alvarlega og fara mjög vandlega yfir það hvernig menn hyggjast bregðast við, og hvort menn hyggjast bregðast við.

Það olli mér því talsverðum vonbrigðum þegar hæstv. fjármálaráðherra kom í ræðustól áðan og hafði af því mestar áhyggjur, eða talaði helst um það, að Fitch Ratings staðfesti að um skattalækkanir væri að ræða. Fitch Ratings fjallaði ekkert um skattbyrðina eða hvort hún hefði aukist undanfarin 10 ár, heldur fjallaði hæstv. fjármálaráðherra um það að tilteknir aðilar hefðu staðfest að um skattalækkanir væri að ræða. Þetta var honum efst í huga við þær aðstæður sem við erum núna að fjalla um, þegar gengið hefur fallið um 9%.

Það kom einnig fram í þessu mati að ríkissjóður er ásakaður um að skila ekki nægum afgangi og láta Seðlabankann sitja einan uppi með ábyrgð á íslensku efnahagslífi. Þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin verður að taka vandlega til skoðunar og einnig verða sveitarfélög að skoða mjög vandlega hvar þau geta tekið á. Markmið okkar allra sameiginlega hlýtur að vera það að ná mjúkri lendingu. Hvort hér sé á ferðinni eðlileg aðlögun er ekki gott að segja en meginatriðið er að menn taki á þessu af ábyrgð og festu og fjalli um það á þann hátt að stjórnmálamenn efni ekki til (Forseti hringir.) enn frekari ófriðar á þessum markaði en orðið er.