132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Við ræðum sjálfsagt aldrei of oft stöðu nýbúa, íslenskra ríkisborgara, af erlendu bergi brotna og hvernig við getum sem best búið í haginn svo þeir falli sem best inn í íslenskt samfélag.

Ég minnist þess að í könnun sem var gerð meðal íbúa af erlendum uppruna hér á Íslandi, voru þeir spurðir hvaða atriði þeir legðu mesta áherslu á til að geta aðlagast og orðið sem virkastir þátttakendur í íslensku samfélagi. Það var einmitt tungumálakunnáttan, íslenskan, að geta tjáð sig, geta tekið þátt í öllum samskiptum á tungumáli þjóðarinnar sem skipti mestu máli. Þá skipti líka máli hvernig við komum þar að. Hér hefur verið minnst á tungumálakennslu í grunnskólum, sem er allt of lítil fyrir þessa ríkisborgara. En í leikskólunum þar sem börnin koma fyrst inn er engin skipulögð starfsemi til að taka á móti þessum nýbúum. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt áherslu á að leikskólinn verði gjaldfrjáls fyrir alla og þar með líka tryggt börnum þessa fólks fullan aðgang að leikskólanum frá byrjun. Með þessari háu gjaldtöku er einmitt hætta á að þessir íbúar haldi börnum sínum frá leikskólanum vegna kostnaðar og annars. Þess vegna leggjum við áherslu á að eitt mesta hagsmunamál í þessu sambandi sé gjaldfrjáls leikskóli (Forseti hringir.) þar sem öll börn koma inn og að við styðjum þessa íbúa með öflugri íslenskukennslu þar, frú forseti.