132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:53]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um stöðu útlendinga. Það er orðið fjölmenningarlegt umhverfi á Íslandi og sú þróun mun halda áfram og ég held að engin ástæða sé til að óttast hana. Hún er óumflýjanleg og hún mun verða hér áfram.

Sem betur fer veit ég ekki til að hér á landi sé um að ræða nein gettó eða sérstök byggðahverfi útlendinga. Ef til vill hefur þetta verið svolítið öðruvísi hjá okkur að því leyti til að útlendingar hafa dreifst um allt land og ekki síður og reyndar meira á tímabili í dreifbýli en í þéttbýlinu.

Mér finnst sjálfsagt að við gjöldum varhuga við innflutningi láglaunafólks sem haldið er utan við íslenskt vinnuverndarumhverfi. Við þurfum að fylgjast með starfsemi starfsmannaleigna og við þurfum að fylgjast með fyrirtækjum sem nýta sér erlenda starfskrafta, að það sé gert á réttan hátt. Réttindi þessa fólks skipta okkur verulegu máli og við þurfum að fylgjast með því.

Ég vil vekja athygli á því sem gerst hefur á Vestfjörðum á undanförnum árum. Þetta gerist þannig með útlendinga a.m.k. í dreifbýlinu, að fyrst koma þeir sem vinnuafl sem síðan tengist þjóðfélaginu. Fjölskyldur og börn koma til sögunnar, en íslenska skólakerfið hefur ekki haft nema eitthvað á annan áratug til að bregðast við þessari nýju þróun. Hún er alveg ný. Ég tel að þar hafi verið afskaplega vel unnið en það verður að vinna vel áfram því margt er ógert.

Þjóðahátíðir á Vestfjörðum og víðar eru viðleitni til að skapa þessu fólki skilyrði til að kynnast menningu okkar og til að sýna okkur menningu þeirra. Það hefur tekist þannig að ekkert samkomuhús reyndist nokkru sinni svo stórt að ekki væri hægt að fylla það þegar þjóðahátíðir voru haldnar á Vestfjörðum og þetta skipti verulegu máli.

Ég má til með að taka undir með leikskólann, að við þurfum að gæta að íslenskukennslunni því stundum er ekki bara svo að börnin, útlendingarnir á leikskólunum séu í vandræðum vegna þess að þau skilja ekki íslensku heldur líka það að íslensku börnin skilja stundum ekki starfsfólkið og þess vegna þurfum við að gæta þess að íslenskan sé kennd þeim sem hingað flytja.