132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Málefni heilabilaðra.

370. mál
[13:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hafin sé eða í undirbúningi heildarstefnumótun í málefnum heilabilaðra. Í öðru lagi, hvað séu starfræktar margar sérdeildir fyrir heilabilaða á Íslandi og hvar þær séu.

Heilabilun er ekki hluti af eðlilegu öldrunarferli heldur viðvarandi eða langt gengið sjúkleikaástand. Þetta segir í bæklingi eftir Svövu Aradóttur sérfræðing í þessum málefnum.

Ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í vetur hversu margir yngri en 67 ára gamlir væru vistaðir á öldrunarstofnunum, í rauninni til að draga fram hve margir heilabilaðir einstaklingar yngri en 67 ára væru þar. Samkvæmt tölum heilbrigðisráðherra eru þeir 87. Það er töluverður hópur og varpar að hluta til ljósi á vanda sem er svo miklu stærri og umfangsmeiri. Eins og ég sagði er heilabilun ekki hluti af eðlilegu öldrunarferli þótt oft sé því ruglað saman, heldur viðvarandi eða langt gengið sjúkleikaástand og þar skiptir greining á einkennum og umönnun öllu máli. Fræðsla fyrir ættingja og starfsfólk er líka grundvallaratriði. Aukin þekking skiptir þarna miklu máli. Okkur skortir heildarstefnumótun í málefnum heilabilaðra. Á hinum Norðurlöndunum er slík stefna samofin allri velferðarpólitík þeirra landa en þess má geta að talið er að um 7% allra yfir 67 ára aldri séu með einhvers konar heilasjúkdóm. 100 sjúkdómar gefa heilabilunareinkenni en heilabilun er yfirheiti yfir fjöldann allan af sjúkdómum. Þess má einnig geta að talið er að um 75% allra á öldrunarstofnunum séu með einhvers konar heilabilun.

Nýjar tegundir af heilabilun koma fram og gera vandann mikið alvarlegri en hann var áður, neysla eiturlyfja og hömlulaus áfengisdrykkja veldur því að mikill fjöldi fólks þjáist af einhvers konar heilabilun miklu yngri en nokkurn tíma áður. Þá má geta þess að margir lifa af alvarlegri slys en áður var en sitja eftir með einhvers konar heilabilun. Við þessu þarf að bregðast og þetta þarf að ræða. Þetta er flókinn og erfiður sjúkdómur sem tekur til sálarlífs og hugarástands fólksins sem af honum þjáist. Öllu skiptir að fræða og miðla, og stefnumótun í málefnum þessa fólks er nauðsynleg. Þannig getum við tekið betur á vandanum og greint hann og það þarf að stofna sérdeildir fyrir heilabilaða. Það er vont að vista þá með öðrum öldruðum. Þarna þarf að skilja á milli, sérstaklega þegar um er að ræða yngra fólk og ég ítreka að greining einkenna og umönnun skipta þarna öllu máli.

Þess vegna tek ég þessa spurningu aftur upp við hæstv. heilbrigðisráðherra sem sýndi þessu máli bæði áhuga og skilning á haustdögum og óska eftir að vita hvar málið er statt núna áður en sett er af stað sérstök vinna við að móta slíka heildarstefnumótun sem svo sannarlega þarf að eiga sér stað.