132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Málefni heilabilaðra.

370. mál
[13:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. hefur beint til mín fyrirspurn um málefni heilabilaðra og spyr í fyrsta lagi hvort hafið sé eða í undirbúningi heildarstefnumótun í málefnum heilabilaðra. Í lögum um málefni aldraðra, nr. 225/1999, segir að á hjúkrunarheimilum eða í hjúkrunarrýmum ætluðum öldruðum skuli vera sérstök aðstaða fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Slík aðstaða er því miður ekki til staðar á öllum öldrunarstofnunum. Deildir fyrir heilabilaða eru flestar í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum og á undanförnum árum hefur verið unnið að því að fjölga slíkum deildum með breytingum og endurbótum á allnokkrum öldrunarstofnunum. Vandinn er mestur á landsbyggðinni enda öldrunarstofnanir víða litlar og víða erfitt um vik að koma fyrir lokuðum deildum eða sérstökum einingum fyrir örfáa einstaklinga. Stefna heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er þó alveg skýr: Að byggja ekki nýjar öldrunarstofnanir án þess að gera ráð fyrir aðstöðu fyrir heilabilaða.

Samkvæmt RAI-mati, þ.e. hjúkrunarþyngdarmælingum sem gerðar eru reglulega á öldruðum sem dvelja á stofnunum, eru um 64% aldraðra á öldrunarstofnunum með heilabilunareinkenni. Um 24% eru með alzheimersjúkdóm en um 40% með aðra minnissjúkdóma. Ekki er þó þörf á sérstöku úrræði fyrir allan þennan hóp heldur ræðst þetta af því á hve háu stigi heilabilunareinkennin eru.

Varðandi stefnumótun í málefnum heilabilaðra er sá þáttur öldrunarmála í sífelldri skoðun líkt og önnur málefni sem lúta að þjónustu við aldraða inni á stofnunum. Ég legg ríka áherslu á að styðja þurfi aldraða sem best til að gera þeim kleift til að búa sem lengst heima og stefna stjórnvalda er sú. Þetta gildir einnig um þá sem eru með heilabilunareinkenni. Oft þurfa þeir á miklum stuðningi að halda og dagvistun er mikilvægt úrræði fyrir marga í þeim hópi. Dagvistunarrýmum fyrir heilabilaða hefur fjölgað markvisst á síðustu missirum. Má þar nefna dagþjálfun fyrir minnissjúka í Hafnarfirði með 20 rýmum sem formlega var tekin í notkun í síðustu viku. Dagvistunarrými fyrir heilabilaða eru nú 125 á landinu öllu, flest í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði eru 113 dagvistarrými fyrir heilabilaða, 8 á Akureyri, 4 í Reykjanesbæ. Almenn dagvistarrými fyrir aldraða eru 515 á landinu öllu og ber að hafa í huga að þau nýtast einnig öldruðum með heilabilunareinkenni.

Mikið og gott starf er unnið á Landakoti, við Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem eru tvær sérhæfðar meðferðar- og endurhæfingardeildir fyrir einstaklinga með sjúkdóma sem valda skerðingu á heilastarfsemi. Þar fer fram mat, greining og læknis- og hjúkrunarmeðferð. Þessar deildir sinna einnig stuðningi við aldraða með heilabilun sem búa heima og aðstandendur þeirra með því að bjóða skammtímadvöl. Við þetta má bæta að á allmörgum stofnunum standa öldruðum til boða hvíldarinnlagnir sem geta nýst heilabiluðum og öðrum.

Á Landakoti er einnig sérstök minnismóttaka þar sem fram fer greining á orsökum minnisskerðingar og veitt er margvísleg þjónusta við aldraða með heilabilun ásamt fræðslu og stuðningi fyrir aðstandendur.

Hv. þingmaður spyr: Hve margar sérdeildir fyrir heilabilaða eru starfræktar á landinu og hvar eru þær? Deildir fyrir heilabilaða á landinu öllu eru 27 talsins með samtals 326 rýmum. Eru þá ekki taldar með heilabilunardeildirnar tvær á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. 16 þessara deilda eru í Reykjavík með samtals 210 rýmum. Í Hafnarfirði eru tvær deildir með 17 rýmum fyrir heilabilaða. Ein deild er í Garðabæ með 10 rýmum, ein í Kópavogi með 10 rýmum, ein 9 rýma deild er í Grindavík og ein 12 rýma deild í Garði. Á Sauðárkróki er ein 10 rýma deild fyrir heilabilaða, á Akureyri eru tvær deildir með samtals 17 rýmum, á Seyðisfirði er ein deild með 19 rýmum fyrir heilabilaða og ein deild er á Hornafirði með 12 rýmum.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar veiti hv. þingmanni svör við fyrirspurnum hans.